Síldarvinnsluskip á frímerki

Síldarvinnsluskip á frímerkiÍ síðasta mánuði kom út ný útgáfa frímerkja hjá Póstinum og ber hún heitið Togarar og fjölveiðiskip. Í útgáfunni eru fjögur frímerki og á einu þeirra er mynd af skuttogaranum Barða NK 120 sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1970. Barði hefur verið talinn fyrsti skuttogarinn í eigu Íslendinga enda var hann fyrsti togari landsmanna með allan hefðbundinn skuttogarabúnað og eingöngu ætlaður til togveiða.

Barði NK var smíðaður í Frakklandi árið 1967. Hann var 327,59 lestir að stærð og með 1200 hestafla vél. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 1970 og kom það í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 14. desember það ár. Eftir að Síldarvinnslan festi kaup á skipinu voru gerðar á því ýmsar endurbætur en það hélt síðan til veiða hinn 11. febrúar 1971.

Fyrsti skipstjóri á Barða NK var Magni Kristjánsson og gegndi hann starfinu til 1973. Við af honum tók Birgir Sigurðsson og stýrði hann skipinu til 1977. Þriðji og síðasti skipstjórinn var Herbert Benjamínsson og var hann við stjórnvöl þar til skipið var selt til Frakklands árið 1979.

Barði tekur sig vel út á frímerkinu. Það er hannað af Elsu Nielsen en hönnunin byggir á ljósmynd sem Anna K. Kristjánsdóttir vélstjóri tók.

Dauft yfir kolmunnaveiðum

Beitir NK á kolmunnamiðunum fyrr á vertíðinni. Ljósm. Tómas Kárason.Kolmunnaskip Síldarvinnslunnar komu öll til löndunar í Neskaupstað í síðustu viku. Börkur landaði tæplega 1800 tonnum, Beitir um 1700 tonnum og Birtingur 500 tonnum eftir stutta veiðiferð. Afli hafði verið tregur og því voru skipin kölluð í land. Beitir hélt til veiða á ný á fimmtudagskvöld og kom til hafnar í gær með lítinn afla. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti sagði að í veiðiferðinni hefðu verið tekin tvö hol og í ljós hefði komið að fiskurinn væri dreifður og var árangur því  lítill. Annað holið var tekið við miðlínuna á milli Íslands og Færeyja og hitt við Hvalbakshallið.

Síldarvinnslunni afhent MSC-vottunarskírteini fyrir síldveiðar

Rut Hermannsdóttir verkefnisstjóri, Gunnþór, Gísli Gíslason framkvæmdastjóri MSC og Valur Ásmundsson sölustjóri. Ljósm. Hákon Viðarsson.Í gær var Síldarvinnslunni afhent MSC- vottunarskírteini fyrir síldveiðar bæði úr norsk- íslenska stofninum og úr íslenska sumargotsstofninum. Þessi vottun felur í sér viðurkenningu á því að veiðar skipa fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Þar með hafa bæði síldveiðar og síldarvinnsla Síldarvinnslunnar hlotið MSC- vottun.

Það var Gísli Gíslason sem afhenti vottunarskírteinið en Gísli er framkvæmdastjóri MSC á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Við þetta tækifæri flutti Gísli fróðlegt erindi fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar um eðli og þróun MSC-vottunarkerfisins og kom fram í því að um 80 fyrirtæki á Íslandi hafi nú fengið svonefnda rekjanleikavottun MSC. Ljóst er að vottun af þessu tagi skiptir orðið miklu máli því hún veitir neytendum traustar upplýsingar um að varan sé framleidd með sjálfbærum hætti og því styrkir hún markaðsstöðu viðkomandi framleiðslufyrirtækja. Neytendur á stórum markaðssvæðum fylgjast grannt með því hvort vörur séu merktar með vottunarmerkjum eður ei og MSC- merkið er mjög þekkt vottunarmerki.

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar 2014

Frá Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar síðastliðið sumar. Ljósm. Margrét Þórðardóttir.Á síðasta sumri starfrækti Síldarvinnslan sjávarútvegsskóla fyrir  ungmenni sem fædd voru á árunum 1998 og 1999. Skólinn var tilraunaverkefni og starfaði í tvær vikur. Meginmarkmiðið með skólahaldinu var að gefa nemendum kost á að fræðast um fiskveiðar og fiskvinnslu en skólastarfið byggði á fyrirlestrahaldi og heimsóknum þar sem vinnslustöðvar, þjónustufyrirtæki  og fiskiskip voru skoðuð. Nemendur fengu námslaun á þeim tíma sem skólinn starfaði og voru þau sambærileg þeim launum sem greidd voru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. 

Námsefnið var fjölbreytt og kennarar í skólanum voru margir. Í upphafi námsins var sögu sjávarútvegs gerð skil og fjallað um veiðiskip, veiðarfæri og verkunaraðferðir á hverjum tíma. Lögð var áhersla á að gera grein fyrir tækniþróuninni og þeim samfélagslegu áhrifum sem sjávarútvegurinn hefur haft. Fyrir utan þetta var fjallað um stoðgreinar sjávarútvegsins, markaðsmál og gæðamál og kennslunni fylgt eftir með heimsóknum í fyrirtæki og um borð í skip. Í kennslunni kom skýrt fram hve störfin innan sjávarútvegsins eru fjölbreytt og þegar Verkmenntaskóli Austurlands var heimsóttur var fjallað um allar þær námsleiðir sem þeir sem kjósa að sinna störfum innan sjávarútvegs eiga kost á að velja.

Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar þótti heppnast vel og í ár var tekin ákvörðun um að færa út kvíar skólastarfsins. Sjávarútvegsfyrirtækin Eskja og Loðnuvinnslan komu til liðs við Síldarvinnsluna og Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú einnig. Ákveðið var að efna til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir eru árið 2000 og í samræmi við það var heiti skólans breytt í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar. Mun skólinn starfa í þrjár vikur í sumar og fer kennsla fram á þremur stöðum; Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Skólastarfið hefur þegar verið auglýst og mun skólinn starfa í eina viku á hverjum stað. Í Neskaupstað verður kennt dagana 23. júní til 27. júní, á Fáskrúðsfirði 30. júní til 4. júlí og á Eskifirði 7. júlí til 11. júlí.

Það er von þeirra sem standa að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar að þeir nemendur sem fæddir eru árið 2000 fjölmenni í skólann og láti ekki þetta einstaka tækifæri fara framhjá sér. Skólahaldið verður líflegt og fjölbreytt og vissulega er það fátítt að nemendur á þessum aldri eigi kost á að sækja nám á fullum launum.  Það er mat þeirra sem standa að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar að námsefni grunnskólans fjalli afar lítið um sjávarútveg en Sjávarútvegsskólanum er ætlað að bæta úr því. Aðstandendur skólans telja brýnt að ungmenni í sjávarbyggðum eins og í Fjarðabyggð þurfi að öðlast staðgóða þekkingu á sjávarútvegi enda ráðast lífsskilyrði íbúanna beint og óbeint af gengi greinarinnar.

Sigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir nemi í sjávarútvegsfræðum og Elvar Ingi Þorsteinsson markaðsfræðingur vinna nú að gerð námsefnis fyrir Sjávarútvegsskólann auk þess sem þau skipuleggja skólahaldið í samvinnu við Austurbrú. Skólastarfið hefur þegar verið auglýst og er skráning í skólann hafin á www.sjavarskoli.net