Aukin umsvif á Seyðisfirði

Gullver NS við bryggju framan við fiskvinnsluhúsið. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS við bryggju framan við fiskvinnsluhúsið. Ljósm. Ómar BogasonSeint á síðasta ári festi Síldarvinnslan kaup á öllum hlutabréfum í Gullbergi ehf. á Seyðisfirði en Gullberg hefur lengi gert út togarann Gullver NS. Samhliða kaupunum á Gullbergi keypti Síldarvinnslan húsnæði og búnað Brimbergs sem rekið hefur fiskvinnslu á Seyðisfirði. Þegar kaupin áttu sér stað gaf Síldarvinnslan út þá yfirlýsingu að Gullver NS yrði áfram gerður út frá Seyðisfirði og áfram yrði haldið framleiðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs á staðnum en Síldarvinnslan rekur þar fyrir fiskimjölsverksmiðju.
 
Síldarvinnslan hóf að endurskipuleggja útgerð togarans og fiskvinnsluna hinn 1. október sl. og hefur starfsemin verið býsna öflug frá þeim tíma. Reksturinn verður undir merkjum Gullbergs sem mun hafa stöðu dótturfélags Síldarvinnslunnar. 
 
Á tímabilinu 1. október til áramóta var sá afli sem kom til vinnslu á Seyðisfirði 52% meiri en á sama tímabili 2013. Auk þess að vinna afla frá togaranum Gullver var fiskur fluttur til vinnslu á Seyðisfirði frá Neskaupstað og Akureyri og eins hafa skip Bergs-Hugins, Vestmannaey og Bergey, landað þar afla sínum alloft. Að sögn Ómars Bogasonar á Seyðisfirði fer árið afar vel af stað og er í nógu að snúast. „Vinnslan hefur gengið mjög vel frá áramótum hjá nýja Gullbergi,“ sagði Ómar. „Fram til dagsins í dag höfum við unnið úr 484 tonnum af þorski og ufsa frá áramótum en á sama tíma í fyrra var unnið úr 132 tonnum. Að vísu ber að taka fram að togarinn Gullver var frá veiðum í einar þrjár vikur í janúar og febrúar í fyrra en það breytir því ekki að mjög aukinn kraftur er í vinnslunni núna. Vinna er stöðug og góð alla daga og unnið hefur verið suma laugardaga. Þetta er mikil breyting því áður var gjarnan unnið í fiskvinnslunni þrjá og hálfan til fjóra daga í viku. Það er verið að slípa ýmislegt til í starfseminni en ég verð ekki var við annað en að starfsfólkið sé mjög ánægt með þá þróun sem hefur átt sér stað,“ sagði Ómar að lokum. 

Loðnan gengur hratt í vestur

Börkur NK á loðnumiðunum. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBörkur NK á loðnumiðunum. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonLoðnan gengur hratt vestur með suðurströnd landsins og er nú komin vestur fyrir Vestmannaeyjar. Afar góð veiði var á miðunum í gær og fylla skipin sig á skömmum tíma. Polar Amaroq og Vilhelm Þorsteinsson eru á leið til Helguvíkur með fullfermi og Birtingur er sneisafullur á leið til Seyðisfjarðar. Þá er Beitir á leið til Neskaupstaðar með fullfermi og Bjarni Ólafsson er væntanlegur þangað síðdegis. Byrjað verður að frysta úr Bjarna Ólafssyni um leið og hann kemur og er gert ráð fyrir að enn sé mögulegt að framleiða á Japansmarkað. Hrognafylling loðnunnar er um og yfir 20% um þessar mundir og því er þess ekki langt að bíða að hrognavinnsla hefjist.
 
Börkur kom á miðin í morgun og hóf að kasta strax.

Ýmist mok eða bræla

Beitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon Ernuson.Beitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon Ernuson.Mokveiði var á loðnumiðunum á föstudagskvöld og á laugardaginn og má nefna að Börkur og Polar Amaroq stoppuðu einungis um sex tíma á miðunum áður en þeir héldu til lands með fullfermi. Engin veiði var hins vegar í gær vegna brælu en í morgun voru bátarnir byrjaðir að kasta og voru að fá góðan afla. Beitir  kom til löndunar í Neskaupstað síðdegis á laugardag með 1900 tonn, þarf af 700 til manneldisvinnslu. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagði að aflinn hefði fengist í 6-7 köstum og um væri að ræða stóra og góða loðnu. „Það var mikið að sjá á miðunum og full ástæða til bjartsýni ef veðrið verður almennilegt,“ sagði Tómas. „Við fengum aflann í Meðallandsbugtinni rétt vestan við Ingólfshöfða, en nú eftir bræluna skilst mér að allur flotinn sé á leið í Fjallasjóinn undan Eyjafjöllunum.“
 
Nú er verið að frysta góða loðnu úr Berki í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Bæði er fryst á Japan og Rússland.
 

Síldarvinnslan hf. er menntasproti atvinnulífsins 2015

Illugi Gunnarsson, Hildur Elín Vignir og Gunnþór Ingvason við afhendingu menntaspotans 2015. Ljósm. Hákon ErnusonIllugi Gunnarsson, Hildur Elín Vignir og Gunnþór Ingvason
við afhendingu menntaspotans 2015. Ljósm. Hákon Ernuson
Í gær voru menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í annað sinn á Menntadegi atvinnulífsins sem Samtök atvinnulífsins standa að ásamt aðildarfélögum sínum, SFS, SVÞ, SF, SFF, SI, Samorku og SAF. Menntaverðlaunin eru viðurkenning til fyrirtækja sem staðið sig hafa vel á sviði fræðslu- og menntamála. Síldarvinnslan hf. hlaut verðlaunin menntasproti ársins fyrir þróunarstarf og nýsköpun til eflingar menntunar og fræðslu.
 
Á þriðja tug fyrirtækja í fjölbreyttum greinum atvinnulífsins þóttu hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála og hlutu tilnefningu. Verðlaunin voru veitt í tveimur flokkum, annars vegar sem menntafyrirtæki ársins og hins vegar menntasproti ársins. 
 
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Hildur Elín Vignir framkvæmdastjóri Iðunnar og formaður dómnefndar afhenti verðlaunin og veitti Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. þeim móttöku.