Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2014

Verður haldinn miðviAðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2014kudaginn 30. apríl 2014 í Hótel Egilsbúð Neskaupstað kl. 14:00.

Dagskrá:
  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar.
  3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs.
  4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu.
  5. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins.
  6. Kosin stjórn félagsins.
  7. Kosnir endurskoðendur.
  8. Önnur mál, löglega fram borin.
Stjórn Síldarvinnslunnar hf.


Mokveiði á Melsekk

Landað úr Barða NK í dag.  Ljósm. Hákon ViðarssonFrystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar í morgun með nálega fullfermi af gullkarfa. Áður hafði skipið millilandað fullfermi í Hafnarfirði þannig að í þessari veiðiferð var aflinn 600 tonn upp úr sjó. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri  sagði að í reynd hefði verið mokveiði allan túrinn en skipið var þrjár vikur á veiðum. „Við veiddum allan tímann á Melsekk á Reykjaneshryggnum sem er um 80 mílur beint úti af Reykjanesi og aflinn var nánast eingöngu gullkarfi,“ sagði Bjarni Ólafur. „ Það var  fiskað á daginn og aflinn unninn á nóttunni og það var svo sannarlega nóg að gera enda má segja að í veiðiferðinni hafi fengist fullfermi í tvígang.“

Barði mun halda til veiða á ný næstkomandi laugardag og verður það blönduð veiðiferð sem standa mun yfir fram yfir mánaðamót. Næsti túr þar á eftir mun svo væntanlega verða úthafskarfatúr. 


Lélegt í ufsa og karfa en nóg af þorski

Bjartur NK kom til löndunar í morgun. Ljósm. Hákon Viðarsson.Ísfisktogarinn Bjartur kom til heimahafnar í Neskaupstað í morgun með um 50 tonna afla og var uppistaðan ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að bölvanlega hafi gengið að fiska ufsa og karfa í veiðiferðinni en hins vegar sé auðvelt að veiða þorsk víðast hvar. Í veiðiferðinni var farið allt frá Breiðdalsgrunni og vestur á Kötlugrunn en alls staðar var lítið að hafa af þeim tegundum sem átti að fiska. „Það var eitt gott við þennan túr“ sagði Steinþór,“ það var blíðuveður allan tímann og það er alveg nýtt því veturinn hefur verið þrautleiðinlegur veðurfarslega.“ 

Síðustu túrar Bjarts á undan þessum hafa hins vegar gengið afar vel og hefur hann gjarnan komið að landi með 90-100 tonn og aflinn að meiri hluta til verið þorskur.

Námskeið um rafmagnsöryggi í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað

Frá rafmagnsöryggisnámskeiðinu. Sigurður Friðrik Jónsson lengst til hægri. Ljósm. Guðjón B. Magnússon.Sl. þriðjudag var haldið námskeið um rafmagnsöryggi í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en með rafvæðingu verksmiðjunnar hafa aðstæður starfsmanna breyst verulega og talin full þörf á að efna til fræðslu um hinar nýju aðstæður.  Í þessu sambandi skal þess getið að eftir að verksmiðjan var að fullu rafvædd er aflnotkun hennar 26MW eða svipað afl og allur Akureyrarbær notar. 

Kennari á námskeiðinu var Sigurður Friðrik Jónsson rafmagnstæknifræðingur og rafveitustjóri álvers ALCOA-Fjarðaáls. Á námskeiðinu var lögð sérstök áhersla á örugg vinnubrögð í kringum háspennubúnað en starfsmenn þurfa að fylgja öryggisstjórnunarkerfi í rekstri slíks búnaðar sem í reynd er gæðakerfi samþykkt af Mannvirkjastofnun. Farið var yfir verklag í kringum háspennubúnað, hættur vegna ljósboga ásamt því að fjallað var almennt um rafmagnsöryggismál. Námskeiðinu var skipt upp þannig að að almennir starfsmenn sátu fyrri hluta þess en síðari hlutann sátu einungis rafvirkjar og vaktformenn.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri segir að námskeiðið hafi heppnast afar vel og verið bæði gagnlegt og fræðandi. „Eftir rafvæðingu verksmiðjunnar eru starfsmennirnir að vinna við aðrar aðstæður en áður og við annan tækjabúnað og það er nauðsynlegt að læra að umgangast þennan nýja búnað þannig að fyllsta öryggis sé gætt“, sagði Guðjón.