Veitt í rysjóttri tíð

Bergey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBergey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonÍsfisktogarinn Bergey VE kom til Neskaupstaðr til löndunar í gær. Afli skipsins var um 63 tonn og var hann blandaður; þorskur, ýsa, ufsi og karfi. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst út í tíðarfarið. „Það er hægt að segja að tíðarfarið hafi verið rysjótt í veiðiferðinni og stundum reyndar skítabræla. Við létum þó veðrið aldrei stoppa okkur og það var veitt allan tímann. Við lönduðum á Djúpavogi 28. október og fórum þaðan suður í Skeiðarárdýpi þar sem við tókum ufsa og karfa. Síðan var haldið austur á Skrúðsgrunn þar sem fékkst ýsa og loks í Litladýpi þar sem veiddist þorskur. Þrátt fyrir veðrið má segja að veiðiferðin hafi gengið þokkalega. Við reiknum ekki með að halda til veiða á ný fyrr en á fimmtudag eða föstudag,“ segir Jón.

 

 

Gullver veiddi víða

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í fyrrinótt með fullfermi eða rúmlega 115 tonn. Uppistaða aflans var þorskur en einnig var dálítið af ýsu og karfa. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. “ Þetta var fimm daga túr og það var veitt víða. Við vorum á Glettinganesflaki og Gerpisflaki og síðan út á Þórsbanka. Megnið af aflanum fengum við þó á Fætinum. Það var þokkalegt veður allan túrinn ef undanskilin er ein brælunótt. Það lítur hins vegar ekkert alltof vel út með veðrið núna – spáin er ekki girnileg”, segir Rúnar.

Gullver hélt á ný til veiða í gærdag.

 

 

Könnun á starfsánægju hjá Síldarvinnslunni

Könnun á starfsánægju hjá SíldarvinnslunniNú er áformað að gera könnun á meðal starfsmanna Síldarvinnslunnar í þeim tilgangi að meta starfsánægju innan fyrirtækisins og ná fram upplýsingum um styrkleika og veikleika í  vinnustaðamenningu á starfsstöðvum þess. Niðurstöðum könnunarinnar er ætlað að efla það sem  gott er og vel er gert innan fyrirtækisins og ná fram þeim þáttum sem betur mega fara. Sambærileg könnun var síðast gerð fyrir þremur árum.
 
Starfsmönnum verður sendur spurningalisti í tölvupósti á næstunni og mun einungis taka 4-6 mínútur að svara spurningunum. Mun listinn verða sendur út á íslensku, ensku og pólsku. Mikilvægt er að sem flestir svari en enginn er þó skyldugur til þess. Svörin verða ekki rekjanleg til einstakra starfsmanna. 
 
Það er Austurbrú sem annast framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar.

Öll vinna um borð í nýja Berki gengur vel

Nú er unnið í Berki NK á athafnasvæði Karstensens skipasmíðastöðvarinnar í Skagen.  Einnig er unnið í systurskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA sem liggur fyrir aftan Börk NK. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonNú er unnið í Berki NK á athafnasvæði Karstensens skipasmíðastöðvarinnar í Skagen. Einnig er unnið í systurskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA sem liggur fyrir
aftan Börk NK.
Ljósm. Karl Jóhann Birgisson

Ein af vindum skipsins hífð um borð. Ljósm. Jóhann Pétur GíslasonEin af vindum skipsins hífð
um borð.
Ljósm. Jóhann Pétur Gíslason
Nýi Börkur liggur í Skagen í Danmörku þar sem unnið er af krafti um borð í skipinu. Um 120 starfsmenn Karstensens Skibsværft eru þar að störfum og sinna ýmsum verkefnum. Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri dvelja í Skagen og fylgjast með öllum framkvæmdum fyrir hönd Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann. „Hér gengur allt mjög vel. Það er unnið samkvæmt áætlun og hún virðist standast ágætlega. Það er verið að vinna allsstaðar í skipinu; til dæmis er byrjað er að klæða veggi, það er unnið í pípulögnum, verið að koma öllum vindum fyrir og eins er unnið í rafkerfinu. Mörg þessara verka eru umfangsmikil og má nefna hvað rafkerfið varðar að lagðir veða 90 km af köplum. Það sem einkennir störfin hér er mjög gott skipulag og mikil fagmennska. Þá er áberandi að hér eru notuð gæðaefni. Það fer vel um okkur Jóhann Pétur hérna og ekki skemmir fyrir að veðrið hefur verið gott. Við erum búnir að kaupa okkur hjól og hjólum í vinnuna og um bæinn. Við getum ekki kvartað yfir neinu,“ segir Karl Jóhann.