Síldarvinnslan og Sjávarútvegsskólinn

Guðrún Arndís Jónsdóttir frá Háskólanum á Akureyri og Sigurður Steinn Einarsson frá Síldarvinnslunni undirrita samning um Sjávarútvegsskólann. Ljósm. Hákon ErnusonGuðrún Arndís Jónsdóttir frá Háskólanum á Akureyri og
Sigurður Steinn Einarsson frá Síldarvinnslunni undirrita
samning um Sjávarútvegsskólann. Ljósm. Hákon Ernuson
Hinn 15. apríl sl. var skrifað undir samning sem felur í sér að Síldarvinnslan muni taka þátt í rekstri Sjávarútvegsskóla Austurlands eins og undanfarin ár. Það er Háskólinn á Akureyri sem annast skólahaldið en skólinn er ætlaður nemendum sem hafa nýlokið 8. bekk grunnskóla. Gert er ráð fyrir að kennt verði í eina viku á hverjum kennslustað en auk Neskaupstaðar verður kennt á eftirtöldum stöðum á Austfjörðum: Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Seyðisfirði og Vopnafirði. 
 
Umsjónarmaður Sjávarútvegsskólans er Guðrún Arndís Jónsdóttir en hún er forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Segir Guðrún að skipulag skólahaldsins sé vel á veg komið og meðal annars sé lokið við að ráða kennara til starfa. Mun kennslan á Austfjörðum fara fram í júní- og júlímánuði nk. Skólinn er starfræktur í samstarfi við vinnuskóla viðkomandi sveitarfélaga og munu vinnuskólarnir ásamt sjávarútvegsfyrirtækjum tryggja að nemendur haldi fullum launum á meðan kennsla fer fram. 
 
Saga Sjávarútvegsskólans er athyglisverð en Síldarvinnslan kom skólanum á fót árið 2013 og bar hann þá nafnið Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar. Árið eftir var boðið upp á fræðsluna í allri Fjarðabyggð og var skólinn þá nefndur Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 var fræðslan skipulögð um allt Austurland og var nafni skólans breytt í samræmi við það og hann nefndur Sjávarútvegsskóli Austurlands. Árið 2016 hóf Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og hefur Sjávarútvegsskólinn nú einnig teygt anga sína til Norðurlands. Þá hefur Sjávarútvegsskóli Ísafjarðarbæjar einnig verið starfræktur að austfirskri fyrirmynd. 

Um 12.000 tonn af kolmunna komin á land og meira á leiðinni

Gott kolmunnahol hjá Beiti NK í færeysku lögsögunni. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott kolmunnahol hjá Beiti NK í færeysku lögsögunni.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Fyrsti kolmunninn úr færeysku lögsögunni barst til verksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði nú fyrir páskana. Nú eru komin á land um 12.000 tonn og meira á leiðinni. Veiðin hefur verið þokkaleg að undanförnu.
 
Til Seyðisfjarðar kom Margrét EA með 2.000 tonn hinn 16. apríl og Bjarni Ólafsson AK með 1.700 tonn hinn 18. apríl. Börkur NK kom síðan með rúm 2.100 tonn hinn 20. apríl og nú er verið að landa 1.500 tonnum úr Hákoni EA.
 
Til Neskaupstaðar kom Beitir NK með 3.200 tonn hinn 20. apríl og Bjarni Ólafsson AK með 1.100 tonn í gærkvöldi. Polar Amaroq mun landa þar rúmlega 200 tonnum í kvöld, en skipið kemur í land til að lagfæra veiðarfæri og Margrét EA er á leiðinni með 2.000 tonn.
 
Að sögn Gunnars Sverrissonar verksmiðjustjóra á Seyðisfirði er kolmunninn fínt hráefni enda kemur fiskurinn vel kældur úr skipunum. Á þessum árstíma er kolmunninn þó ekki mjög feitur. Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri í Neskaupstað tekur undir með Gunnari og segir að vinnslan gangi mjög vel.
 

Fyrstu skipin með kolmunna úr færeysku lögsögunni á landleið

Bjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Neskaupstaðar með kolmunnafarm á morgun. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Neskaupstaðar með kolmunnafarm á morgun. Ljósm. Hákon ErnusonFyrstu kolmunnaskipin sem eru að veiðum í færeysku lögsögunni eru að fylla um þessar mundir og eru jafnvel á landleið. Margrét EA er á leið til Seyðisfjarðar með 2.000 tonn og Polar Amaroq er á leið til Skagen í Danmörku einnig með 2.000 tonn. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK og spurði frétta af kolmunnamiðunum. „Það er í sannleika sagt heldur rólegt yfir veiðunum og veðrið er búið að vera skelfilegt. Hér er mikill fjöldi skipa að veiðum. Þau eru færeysk, rússnesk og íslensk og þau eru að fá misjafnan afla en toga gjarnan lengur en oft áður. Að undanförnu hafa íslensku skipin yfirleitt verið að fá 250 til 400 tonn eftir að hafa togað frá 10 og upp í 18 tíma. Við erum nú með okkar fimmta hol í veiðiferðinni og leggjum væntanlega af stað til Neskaupstaðar að því loknu. Besta holið hjá okkur var 600 tonn og er það með allra besta móti en lakasta holið gaf einungis 100 tonn,“ segir Runólfur.

Metafli hjá Eyjunum

Bergey VE að veiðum í skjóli við Vestmannaeyjar. Varðskip fylgist með. Ljósm. Birgir Þór SverrissonBergey VE að veiðum í skjóli við Vestmannaeyjar.
Varðskip fylgist með. Ljósm. Birgir Þór Sverrisson
Veiðar ísfisktogaranna Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE hafa gengið afar vel það sem af er árinu. Á fyrstu þremur mánuðum ársins hafa skipin aldrei veitt jafn mikið. Afli skipanna nemur 3.200 tonnum af slægðum fiski það sem af er árinu en til samanburðar veiddu þau 2.900 tonn á sama tíma í fyrra sem þá var metafli. Uppistaða aflans hefur verið þorskur, ufsi og ýsa. Í fyrstu var ýsan treg en fór að veiðast af krafti í lok marsmánaðar. Það er ekki einungis aflinn sem hefur verið góður hjá Eyjunum heldur hefur aflaverðmætið einnig aukist til muna á milli ára.
 
Eins og venjulega hefur veður haft mikil áhrif á veiðar skipanna. Veðrið hefur oft verið óhagstætt og þá hefur það gert það að verkum að skipin hafa verið bundin tilteknum veiðisvæðum. Lengi vel var til dæmis aðeins hægt að sækja á mið sem voru í skjóli við Vestmannaeyjar.
 
Í marsmánuði síðastliðnum fóru Eyjarnar samtals í 21 veiðiferð og var afli þeirra 1.500 tonn. Það gerir 34 tonn á veiðidag sem verður að teljast harla gott.

Enginn kraftur í kolmunnaveiðunum ennþá

Polar Amaroq. Ljósm. Geir ZoegaPolar Amaroq. Ljósm. Geir ZoegaÍslensk skip hafa hafið kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni en heldur rólegt er yfir veiðunum ennþá. Heimasíðan ræddi við Sigurð Grétar Guðmundsson skipstjóra á Polar Amaroq og spurði hvernig  gengi. „Þetta fer hægt af stað. Við erum búnir að taka tvö hol. Í því fyrra fengust 340 tonn eftir að hafa togað í 17 tíma og í því síðara fengust 320 tonn eftir 22 tíma. Við erum á línunni um 120 mílur suðvestur af Suðurey. Hérna er mikill fjöldi skipa og þau eru færeysk, rússnesk og íslensk auk okkar. Núna eru 20 skip að toga hér í næsta nágrenni við okkur. Færeyingarnir segja að enn séu nokkrir dagar í að kolmunninn gangi fyrir alvöru inn í lögsöguna, en hann hefur gengið hægt norður eftir nú síðustu dagana. Vissulega gæti hann þó tekið strauið með fallinu og þá er þetta fljótt að gerast,“ segir Sigurður Grétar.
 

Þegar síld var landað úr landgöngupramma

Síld söltuð á söltunarstöðinni Sólbrekku í Mjóafirði sumarið 1965.Síld söltuð á söltunarstöðinni Sólbrekku í
Mjóafirði sumarið 1965.
Hinn 24. mars árið 1965 var hlutafélagið Sólbrekka stofnað. Tilgangur félagsins var að koma á fót síldarsöltunarstöð og hefja síldarsöltun í Mjóafirði eystra. Hluthafarnir í félaginu voru Þórður Óskarsson, skipstjóri á Sólfara AK, Björn J. Björnsson og Gunnar Ólafsson, en þeir voru allir frá Akranesi. Þá átti Dýrleif Hallgrímsdóttir, eiginkona Gunnars, hlut í félaginu og einnig Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði.
 
Bryggjan á Brekku var lagfærð og endurbætt og  kom  félagið þar upp myndarlegri söltunarstöð. Ráðast þurfti í ýmsar framkvæmdir og meðal annars var reistur íbúðarbraggi fyrir starfsfólk. Söltun hófst síðan sumarið 1965 og var saltað á stöðinni í fjögur sumur. Árið 1965 var saltað í 5.490 tunnur, árið 1966 í 7.580 tunnur, árið 1966 í 4.396 tunnur og árið 1968 í 4.092 tunnur.
 
Sólfari AK landar síld til söltunar. Myndin er líklega tekin í hádegishléi. Ljósm. Jón SkaptiSólfari AK landar síld til söltunar. Myndin er líklega tekin
í hádegishléi. 
Söltunarstöðin Sólbrekka var um margt einstök. Hún var eina stöðin á þessu síldveiðitímabili sem ekki var starfrækt í þéttbýli eða í næsta nágrenni þéttbýlis. Þá var engin síldarverksmiðja í Mjóafirði og því þurfti að flytja slóg og úrgangssíld til Neskaupstaðar þar sem síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók við hráefninu. Fyrsta árið var slógið og úrgangssíldin  flutt á milli í landgöngupramma sem flóabáturinn dró. Eftir það voru þurrafúabátar notaðir til flutninganna en flóabáturinn dró þá einnig. Heimasíðan ræddi stuttlega við Gunnar Ólafsson, sem var einn eigenda Sólbrekku, og spurði hann fyrst hvort það hafi almennt þótt skynsamlegt að koma upp síldarsöltunarstöð í Mjóafirði. „Nei, blessaður vertu, mörgum þótti þetta arfavitlaust. Sumir sögðu að þetta væri það vitlausasta sem við gætum gert, því þarna væri ekkert fólk og engin síldarverksmiðja. Menn hristu endalaust hausinn yfir þessu en samt sem áður létum við af þessu verða. Þarna var byggður þrjátíu manna braggi, keyptar tvær rafstöðvar og allur búnaður á söltunarstöðina. Mjóafjarðarhreppur lagfærði bryggjuna og fékk olíutank sem nauðsynlegt var að hafa. Landgönguprammann til að flytja slóg og úrgangssíld til Neskaupstaðar fengum við vestur á fjörðum. Hann var einungis notaður fyrsta sumarið. Hann lak og ekki var talið forsvaranlegt að nota hann lengur. Eftir það notuðum við afskráða þurrafúabáta í flutningana sem flóabáturinn dró. Fyrst var það bátur sem hét Skíðblaðnir frá Vestmannaeyjum og síðan Hafnfirðingur frá Hafnarfirði. Pramminn er sérstaklega eftirminnilegur, en hann var yfirleitt kallaður“ Járnhausinn“ á meðan hann var í notkun eystra. Við áttum víst að skila prammanum aftur vestur en af því varð aldrei og hann er því enn í Mjóafirði. Slógið og úrgangssíldin fóru í verksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og við áttum afar gott samstarf við Norðfirðinga. Fyrst vorum við í sambandi við Hermann Lárusson framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar en síðasta árið hafði Ólafur Gunnarsson tekið við af honum. Hjá söltunarstöðinni var mest saltað úr Sólfara AK en eins komu Norðfjarðarbátar og lönduðu hjá okkur í töluverðum mæli. Starfsfólk kom víða að til starfa á stöðinni. Þarna störfuðu til dæmis Akurnesingar og Siglfirðingar og svo auðvitað einhverjir heimamenn. Það fól í sér mikla vinnu að láta þetta gerast en þessi tími var skemmtilegur og hann er afskaplega eftirminnilegur,“ segir Gunnar.
 
Flóabáturinn að draga landgönguprammann til Neskaupstaðar.Flóabáturinn að draga landgönguprammann
til Neskaupstaðar.
Allir sem heimsækja Mjóafjörð sjá merkisprammann sem einu sinni gegndi því hlutverki að flytja síld á milli fjarða og var kallaður „Járnhausinn“.  Pramminn liggur í fjörunni innarlega í firðinum norðanverðum rétt við þjóðveginn þar sem hann hægt og bítandi verður riði að bráð. Þess má einnig geta að bragginn sem Sólbrekkumenn reistu í Mjóafirði hefur gegnt mikilvægu hlutverki í byggðarlaginu eftir að síldin hvarf á braut. Hann hefur meðal annars verið notaður sem skóli og gistiheimili.
 
Myndirnar sem fylgja og teknar voru sumarið 1965 eru úr safni Jóns Skafta Kristjánssonar sem gegndi starfi vélstjóra á Sólfara AK á síldarárunum.
 
 Við bryggjuna sést landgöngupramminn hálffullur af slógi og úrgangssíld. Ljósm. Jón SkaptiVið bryggjuna sést landgöngupramminn hálffullur af
slógi og úrgangssíld. 
 Landgöngupramminn liggur nú í fjörunni innarlega í Mjóafirði norðanverðum. Ljósmynd fengin hjá FjarðabyggðLandgöngupramminn liggur nú í fjörunni innarlega í Mjóafirði norðanverðum. Ljósmynd fengin hjá Fjarðabyggð