Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar hafa tekið á móti 35.400 tonnum af kolmunna

Börkur NK að veiðum. Ljósm. Geir ZoëgaFiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað hafa tekið á móti 35.400 tonnum af kolmunna það sem af er vertíðinni. Verksmiðjan í Neskaupstað hefur tekið á móti rúmlega 23.000 tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 12.400 tonnum. Vinnslan hefur gengið vel en hún hefur þó ekki verið samfelld. Til dæmis var vinnsluhlé á Seyðisfirði í gær og beðið eftir hráefni.

Auk þess kolmunna sem landað hefur verið í fiskimjölsverksmiðjurnar hafa vinnsluskip landað nokkru af frystum afurðum í frystigeymslurnar í Neskaupstað. 

Kolmunnaveiðin er þokkalega góð í færeysku lögsögunni rétt eins og verið hefur. Ágætur afli fæst á daginn en minna á nóttunni. Skipin toga í 7-15 tíma, að sögn Ólafs Gunnars Guðnasonar stýrimanns á Berki og eru þau að fá um og yfir 500 tonna hol á daginn þegar best lætur. Kolmunninn hefur haldið sig á svipuðum slóðum síðustu dagana og hafa Síldarvinnsluskipin verið að veiðum vestan í svokölluðum Munkagrunni. Börkur er á landleið með fullfermi þegar þetta er ritað og Beitir er kominn með góðan afla. Birtingur tók 450 tonna hol í gærkvöldi en ekki hefur frést af honum í dag. 

Kolmunnaskipin að fá góðan afla

Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas KárasonKolmunnaveiðar hafa gengið vel að undanförnu og hafa skipin komið til löndunar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hvert af öðru. Börkur er að landa fullfermi á Seyðisfirði og Hákon bíður löndunar þar. Bjarni Ólafsson er nýlega komin á miðin að aflokinni löndun í Neskaupstað og Polar Amaroq er að landa þar fullfermi. Beitir er á landleið með fullfermi og Birtingur er við það að fylla á miðunum.


Kolmunnaskipin með góðan afla

Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas KárasonKolmunnaveiðar hafa gengið vel að undanförnu og hafa skipin komið til löndunar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hvert af öðru. Börkur er að landa fullfermi á Seyðisfirði og Hákon bíður löndunar þar. Bjarni Ólafsson er nýlega komin á miðin að aflokinni löndun í Neskaupstað og Polar Amaroq er að landa þar fullfermi. Beitir er á landleið með fullfermi og Birtingur er við það að fylla á miðunum.


Góð kolmunnaveiði yfir daginn

 
Beitir NK að kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas KárasonSíðustu daga hefur verið góð kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni yfir dagtímann. Þegar kvölda tekur dregur úr veiðinni og er hún lítil yfir nóttina. Öll þrjú skip Síldarvinnslunnar fengu til dæmis um eða yfir 500 tonna hol í gær og verður það að teljast harla gott. Bjarni Ólafsson og Polar Amaroq eru á landleið til Neskaupstaðar með fullfermi og Börkur er einnig með fullfermi á leið til Seyðisfjarðar. Birtingur og Beitir eru að veiðum og hafði heimasíðan samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Beiti í morgun. „Það hefur verið fínasta veiði yfir daginn en minna á nóttunni, fiskurinn dreifir sér í myrkrinu,“ sagði Hálfdan. „Annars erum við nú með hol á síðunni eftir nóttina og í því eru 200-300 tonn sem þykir gott. Í gærkvöldi fengum við 500-600 tonna hol eftir að hafa togað í 7-8 tíma en þetta hol sem nú er verið að dæla úr tók 10 tíma. Við erum komnir með um 1000 tonn og það er ágætis veiðiútlit“, sagði Hálfdan að lokum.

Yfir 7.000 tonn af kolmunna hafa borist til Seyðisfjarðar

Beitir NK á kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas Kárason.Beitir NK kom með fullfermi af kolmunna til Seyðisfjarðar í fyrrinótt og var lokið við að landa úr skipinu um klukkan fimm í morgun. Aflinn var rúmlega 2.100 tonn og með honum hefur fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði tekið á móti rúmlega 7.000 tonnum á vertíðinni. Að sögn Gunnars Sverrissonar  rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar hefur vinnslan á Seyðisfirði gengið vel eftir að hún hófst af fullum krafti. Segir Gunnar að lokið verði við að vinna það hráefni sem hefur borist til verksmiðjunnar á morgun en miðað við þá veiði sem nú er ætti vinnsluhléið ekki að vera langt.

Birtingur á kolmunnaveiðar

Birtingur NK farinn á kolmunnaveiðar. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBirtingur NK hélt til kolmunnaveiða í gær en skipið hefur legið í höfn frá því að loðnuvertíð lauk. Þar með eru kolmunnaveiðiskip Síldarvinnslunnar orðin þrjú talsins en Börkur og Beitir hafa stundað veiðarnar að undanförnu. Kolmunnakvóti Síldarvinnslunnar á yfirstandandi vertíð er um 50 þúsund tonn og því þótti nauðsynlegt að fjölga veiðiskipunum í þrjú. Skipstjóri á Birtingi er Tómas Kárason.


Kolmunna landað yfir páskana

Færeyska skipið Fagraberg kom með 3000 tonn af kolmunna til Seyðisfjarðar. Ljósm. Gunnar SverrissonKolmunnaveiði í færeysku lögsögunni glæddist fyrir páska og yfir páskana komu skip til löndunar bæði til Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar. Annars hefur veiðin verið köflótt, stundum hafa skipin þurft að toga lengi en inn á milli hefur fengist góður afli eftir tiltölulega stutt hol. Holin hafa tekið á bilinu 4-14 tíma. Bjarni Ólafsson kom með fullfermi til Neskaupstaðar á föstudaginn langa og á laugardaginn fyrir páska kom Hákon EA með um 1300 tonn. Börkur NK kom síðan til heimahafnar með rúmlega 2500 tonn í fyrradag og var lokið við að landa úr honum í gær.

Á föstudaginn langa kom færeyska skipið Fagraberg til Seyðisfjarðar með 3000 tonn og þegar þetta er ritað er verið að landa um 2000 tonnum úr Polar Amaroq. Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar  segir að það sé svo sannarlega gleðiefni að fiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði skuli fá hráefni. „Verksmiðjan hefur staðið í 11 mánuði og það tók smá tíma að taka hrollinn úr véladótinu en nú gengur allt orðið vel,“ sagði Gunnar. „Það er mikilvægt fyrir fyrirtækið og samfélagið hér að hráefni skuli berast til verksmiðjunnar. Við fengum ekkert á loðnuvertíðinni, enda loðnukvótinn lítill og nánast allt sem veiddist fór til manneldisvinnslu. Nú er hinsvegar kolmunnakvótinn myndarlegur og þá fáum við hráefni til vinnslu.“

Síðustu fréttir af kolmunnamiðunum eru þær að Bjarni Ólafsson er búinn að fylla og lagður af stað til löndunar. Beitir NK er kominn með 1700 tonn og ætti að fylla í dag, en Beitir lenti í vélarbilun þegar veiðar voru að hefjast í færeysku lögsögunni og þurfti að leita til hafnar í Færeyjum til að fá viðgert. 

Bjartur með 97 tonn af blönduðum afla

Bjartsmenn í aðgerð. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í gær með 97 tonn af blönduðum afla. Um 50 tonn af aflanum var þorskur, 22 tonn ufsi og um 17 tonn karfi. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra gekk veiðiferðin vel: „Nú gekk okkur mun betur að veiða ufsa en í síðasta túr, en þá var erfitt að ná honum. Töluvert þurfti að hafa fyrir því að ná karfanum en eins og oft áður var ekkert vandamál að fá þorsk. Það þarf að gæta þess að þorskholin verði ekki alltof stór og því toguðum við einungis í hálfa til eina klukkustund hverju sinni eftir að við fórum í þorskveiðina. Við tókum þorskinn á Breiðdalsgrunni en ufsann og karfann í Berufjarðarál og í Hvalbakshalli,“ sagði Steinþór að lokum.

Kolmunnaveiðar hafnar á ný

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Berki NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir héldu úr höfn í Færeyjum á mánudagskvöld áleiðis á kolmunnamiðin suður af eyjunum. Börkur hóf veiðar strax og á miðin var komið en bilun kom upp í annarri aðalvél Beitis og var þá haldið til hafnar í Fuglafirði þar sem unnið er að viðgerð.

Heimasíðan hafði samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Berki og lét hann þokkalega af sér. Sagði hann að fiskurinn væri að ganga inn á veiðisvæðið og væru sumir íslensku bátanna að hitta í gott en 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeysku lögsögunni. Sagði Sturla að þeir á Berki væru búnir að fá 800 tonn í tveimur holum og væru nú að toga. Tæplega  300 tonn fengust í fyrra holinu og rúmlega  500 í því síðara. „Þetta gengur bara orðið nokkuð vel“, sagði Sturla að lokum.


Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2014

Verður haldinn miðviAðalfundur Síldarvinnslunnar hf. 2014kudaginn 30. apríl 2014 í Hótel Egilsbúð Neskaupstað kl. 14:00.

Dagskrá:
  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar.
  3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs.
  4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu.
  5. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins.
  6. Kosin stjórn félagsins.
  7. Kosnir endurskoðendur.
  8. Önnur mál, löglega fram borin.
Stjórn Síldarvinnslunnar hf.


Mokveiði á Melsekk

Landað úr Barða NK í dag.  Ljósm. Hákon ViðarssonFrystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar í morgun með nálega fullfermi af gullkarfa. Áður hafði skipið millilandað fullfermi í Hafnarfirði þannig að í þessari veiðiferð var aflinn 600 tonn upp úr sjó. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri  sagði að í reynd hefði verið mokveiði allan túrinn en skipið var þrjár vikur á veiðum. „Við veiddum allan tímann á Melsekk á Reykjaneshryggnum sem er um 80 mílur beint úti af Reykjanesi og aflinn var nánast eingöngu gullkarfi,“ sagði Bjarni Ólafur. „ Það var  fiskað á daginn og aflinn unninn á nóttunni og það var svo sannarlega nóg að gera enda má segja að í veiðiferðinni hafi fengist fullfermi í tvígang.“

Barði mun halda til veiða á ný næstkomandi laugardag og verður það blönduð veiðiferð sem standa mun yfir fram yfir mánaðamót. Næsti túr þar á eftir mun svo væntanlega verða úthafskarfatúr. 


Lélegt í ufsa og karfa en nóg af þorski

Bjartur NK kom til löndunar í morgun. Ljósm. Hákon Viðarsson.Ísfisktogarinn Bjartur kom til heimahafnar í Neskaupstað í morgun með um 50 tonna afla og var uppistaðan ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að bölvanlega hafi gengið að fiska ufsa og karfa í veiðiferðinni en hins vegar sé auðvelt að veiða þorsk víðast hvar. Í veiðiferðinni var farið allt frá Breiðdalsgrunni og vestur á Kötlugrunn en alls staðar var lítið að hafa af þeim tegundum sem átti að fiska. „Það var eitt gott við þennan túr“ sagði Steinþór,“ það var blíðuveður allan tímann og það er alveg nýtt því veturinn hefur verið þrautleiðinlegur veðurfarslega.“ 

Síðustu túrar Bjarts á undan þessum hafa hins vegar gengið afar vel og hefur hann gjarnan komið að landi með 90-100 tonn og aflinn að meiri hluta til verið þorskur.

Námskeið um rafmagnsöryggi í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað

Frá rafmagnsöryggisnámskeiðinu. Sigurður Friðrik Jónsson lengst til hægri. Ljósm. Guðjón B. Magnússon.Sl. þriðjudag var haldið námskeið um rafmagnsöryggi í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en með rafvæðingu verksmiðjunnar hafa aðstæður starfsmanna breyst verulega og talin full þörf á að efna til fræðslu um hinar nýju aðstæður.  Í þessu sambandi skal þess getið að eftir að verksmiðjan var að fullu rafvædd er aflnotkun hennar 26MW eða svipað afl og allur Akureyrarbær notar. 

Kennari á námskeiðinu var Sigurður Friðrik Jónsson rafmagnstæknifræðingur og rafveitustjóri álvers ALCOA-Fjarðaáls. Á námskeiðinu var lögð sérstök áhersla á örugg vinnubrögð í kringum háspennubúnað en starfsmenn þurfa að fylgja öryggisstjórnunarkerfi í rekstri slíks búnaðar sem í reynd er gæðakerfi samþykkt af Mannvirkjastofnun. Farið var yfir verklag í kringum háspennubúnað, hættur vegna ljósboga ásamt því að fjallað var almennt um rafmagnsöryggismál. Námskeiðinu var skipt upp þannig að að almennir starfsmenn sátu fyrri hluta þess en síðari hlutann sátu einungis rafvirkjar og vaktformenn.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri segir að námskeiðið hafi heppnast afar vel og verið bæði gagnlegt og fræðandi. „Eftir rafvæðingu verksmiðjunnar eru starfsmennirnir að vinna við aðrar aðstæður en áður og við annan tækjabúnað og það er nauðsynlegt að læra að umgangast þennan nýja búnað þannig að fyllsta öryggis sé gætt“, sagði Guðjón.

Framkvæmdir hafnar við nýbyggingu á hafnarsvæðinu í Neskaupstað

Framkvæmdir hafnar við pökkunarmiðstöð. Ljósm. Smári Geirsson.Í gær hófust framkvæmdir við nýbyggingu sem Síldarvinnslan reisir á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Byggingin sem um ræðir verður 1000 fermetrar að stærð og áföst fiskiðjuverinu. Nýja húsið mun þjóna hlutverki pökkunarmiðstöðvar fiskiðjuversins en þar verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum. Full ástæða er til að bæta pökkunaraðstöðuna miðað við núverandi afköst versins en eins er nýja húsið byggt með tilliti til afkastaaukningar sem fyrirhuguð er í framtíðinni.

Það er Haki ehf. sem annast jarðvegsframkvæmdir vegna byggingarinnar en unnið er að samningum við aðra verktaka. Ráðgert er að nýja húsið verði fullbyggt í lok júnímánaðar áður en makríl- og síldarvertíð hefst. 


Beitir og Börkur í höfn í Þvereyri á Suðurey

Frá Þvereyri á Suðurey í FæreyjumKolmunnaskipin Beitir og Börkur liggja nú í höfn á Þvereyri á Suðurey í Færeyjum. Engin kolmunnaveiðiveiði sem heitið getur hefur að undanförnu verið innan færeyskrar lögsögu þar sem íslenskum skipum er heimilt að veiða. Beitir og Börkur héldu til veiða frá Neskaupstað sl. föstudag en hafa legið í höfn frá því að þeir komu til Færeyja. Önnur íslensk skip liggja ýmist í höfn eða eru úti að fylgjast með en láta reka að mestu. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Beiti og heyrði í honum hljóðið:“Við liggjum hér í höfn og það fer vel um mannskapinn, hér er sólskin og blíða en því miður lítið að frétta af fiskiríi“, sagði Hálfdan.  „ Við bíðum rólegir eftir því að fiskurinn gangi inn í færeysku lögsöguna. Færeysku skipin eru að mokfiska í skosku landhelginni hér suður af en þau hafa heimild til að veiða þar. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð misjafnt hvenær kolmunninn hefur látið sjá sig í miklu magni í færeyskri lögsögu. Í fyrra og hitteðfyrra var komin góð veiði um 10. apríl en stundum hefur þetta gerst síðar. Það skiptir hins vegar máli að bíða hérna því einungis 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeyskri lögsögu og því koma menn hér til að ná sér í númer svo unnt sé að hefja veiðar strax og fiskurinn sýnir sig. Við erðum bara að bíða þolinmóðir, það er ekkert annað í stöðunni“. 


Frystitogarinn Barði að gera það gott í gullkarfanum

Löndun úr Barða NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði kom í gærkvöldi til Hafnarfjarðar þar sem hann millilandar fullfermi af gullkarfa. Ráðgert er að togarinn haldi til veiða á ný í kvöld og verður stefnan þá tekin á karfamiðin á Melsekk. Theodór Haraldsson stýrimaður upplýsti að mjög góð veiði hefði verið í veiðiferðinni og veður gott. „ Við höfum verið að toga í um 6 tíma á sólarhring en síðan látið reka á meðan aflinn er unninn. Búið var að fylla skipið eftir einungis 9 daga á veiðum en aflinn er um 340 tonn upp úr sjó og er örugglega 95% aflans gullkarfi. Það er oft mjög góð veiði á þessum slóðum um þetta leyti árs og veiðin hjá okkur var um 5-10 tonn á togtíma“, sagði Theodór. 


Börkur NK kemur með fyrsta kolmunnafarminn til Neskaupstaðar

Börkur NK kom um hádegi í dag til Neskaupstaðar með fyrsta kolmunnafarminn á vertíðinni. Ljósm. Hákon Viðarsson.Upp úr hádeginu í dag kom Börkur NK með fyrsta kolmunnafarminn á vertíðinni til Neskaupstaðar. Afli skipsins er 1.600 tonn og fer hann til mjöl- og lýsisvinnslu. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri sagðist trúa því að þetta væri byrjunin á góðri vertíð enda eigi að vera mikill kolmunni í hafinu og kvótinn mikill. Þá sagði hann að veiðar hefðu gengið vel á nýju skipi en á meðan löndun færi fram yrði ýmislegt smávægilegt sem tengist togveiðibúnaði þess lagfært. Hjörvar lýsti fyrstu veiðiferð kolmunnavertíðarinnar þannig: „Við hófum veiðar sunnan við Rockall-svæðið utan írskrar lögsögu en þar hafði veiðst vel áður en við komum þangað. Eftir að við komum fjöruðu veiðarnar út hægt og bítandi og síðasta holið, 230 tonn, tókum við sunnan í Færeyjabanka. Það er ljóst að hrygningarfiskurinn er ekki enn genginn inn í færeyska lögsögu svo neinu nemur en það mun sennilega gerast á næstu 7-10 dögum og þá má gera ráð fyrir að kraftveiði hefjist. Fiskurinn er á leið norður eftir á fæðustöðvar að lokinni hrygningu“.

Þegar þetta er ritað er Beitir kominn með 1.400 tonn af kolmunna og var að kasta, Bjarni Ólafsson var að fylla sig og Polar Amaroq var að veiðum. Þessi skip munu væntanlega koma til löndunar á næstu dögum.


Kolmunnaskipin á sama blettinum á botnskaki

Beitir NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÞað gengur á ýmsu á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi. Kolmunninn heldur sig við botninn yfir daginn en kemur eitthvað upp á nóttunni og misjafnt er hvað veiðiskipin toga lengi hverju sinni. Um klukkan tvö í dag var Börkur að dæla um 200 tonnum eftir að hafa togað í sjö klukkustundir og var skipið þá komið með um 1300 tonna afla. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra hafði áhöfnin átt í tímabundnu brasi með veiðarfærið en veður var þokkalegt. Að vísu myndi bræla eitthvað í dag en það veður myndi ganga fljótt yfir. Börkur hífði 300 tonn í gærdag og síðan 150 tonn eftir að hafa togað í tvo og hálfan tíma.

Beitir var að toga skammt frá Berki og upplýsti Tómas Kárason skipstjóri að þeir væru komnir með um 900 tonna afla. „Það er allur flotinn hérna á sama blettinum í botnskaki og sumir hafa fest trollin í karga og skemmt þau. Hérna er töluvert lóð en þetta er klesst niður við botn eins og er. Við höfum verið að toga misjafnlega lengi en algengt er að togað sé í 5-8 tíma“, sagði Tómas.


Lélegri loðnuvertíð lokið

Beitir NK á loðnuveiðum úti af Vestfjörðum í byrjun marsmánaðar. Ljósm. Þorgeir BaldurssonLoðnuvertíðinni lauk í síðustu viku en þá gáfust skipin endanlega upp á að leita loðnunnar. Heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni var rúmlega 127 þúsund tonn en í fyrra var kvóti þeirra 463 þúsund tonn. Því má segja að vertíðin hafi valdið vonbrigðum og reynst fyrirtækjunum og þjóðfélaginu heldur rýr; gera má ráð fyrir að útflutningsverðmæti loðnuafurða á vertíðinni sé tæplega 12 milljarðar á móti 34 milljörðum í fyrra.

Afli skipa Síldarvinnslunnar á vertíðinni var sem hér segir:

Börkur eldri    5.344 tonn
Börkur nýi       2.048 tonn
Beitir             3.589 tonn
Birtingur         5.134 tonn

Alls veiddu skipin því 16.115 tonn. Tekið skal fram að áhöfn Beitis stundaði veiðar á Birtingi hluta úr vertíðinni  á meðan lagfæringar á Beiti fóru fram.

Alls tók Síldarvinnslan á móti 45.000 þúsund tonnum af loðnu á vertíðinni ef með eru talin 3000   tonn af sjófrystri loðnu sem landað var í frystigeymslur fyrirtækisins í Neskaupstað.

Alls voru fryst um 10.200 tonn af loðnu fyrir ýmsa markaði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, þar af voru liðlega 400 tonn hrogn. Þá voru unnin um 900 tonn af hrognum í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. 

Fiskimjölsverksmiðjurnar í Neskaupstað og í Helguvík tóku á móti tæplega 32.000 tonnum af loðnu á vertíðinni en verksmiðjan á Seyðisfirði var ekki nýtt. Móttekin loðna verksmiðjanna var sem hér segir:

Neskaupstaður  16.029 tonn
Helguvík            15.942 tonn

Frystar afurðir vertíðarinnar hjá Síldarvinnslunni námu samtals rúmlega 11 þúsund tonnum en afurðir fiskimjölsverksmiðjanna tæplega 8.200 tonnum.

Kolmunninn farinn að veiðast

Börkur NK. Ljósm. Guðlaugur BirgissonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir komu á kolmunnamiðin um 300 mílur vestur af Norður-Írlandi í fyrradag. Á miðunum var þá vitlaust veður og ekki unnt að stunda veiðar en í gær tók veðrið heldur að skána og hófust veiðar þá. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að þeir hafi fengið 300 tonna hol í gærkvöldi og voru að hífa þokkalegt hol þegar heimasíðan hafði tal af honum. Segir Tómas að þeir á Beiti hafi lent í dálitlu brasi við upphaf veiðanna en nú sé hins vegar ágætis veiðiútlit. Um 20 skip eru á blettinum sem veitt er á og eru þau af ýmsu þjóðerni; þarna eru Rússar, Færeyingar og Norðmenn auk íslenskra skipa. 

Börkur er á sömu slóðum og Beitir og að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra eru þeir komnir með um 580 tonn í þremur holum. „Það er loksins komið skaplegt veður og þá fer þetta allt að ganga vel“, sagði Hjörvar.

Undirflokkar