Beitir NK fékk um 550 tonn af loðnu á Norðfjarðarflóa í gær

Beitir NK fékk um 550 tonn af loðnu á Norðfjarðarflóa í gær
Þegar Beitir NK var á útleið að lokinni löndun í Neskaupstað í gær rakst hann á myndarlegar loðnulóðningar á Norðfjarðarflóanum. Nokkur bræla var þegar þetta gerðist en ákveðið var að bíða þar til veðrið gengi niður og freita þess að kasta. Tómas Kárason skipstjóri sagði að þetta hefði litið vel út og mönnum hefði þótt spennandi að fá loðnufarm í kartöflugarðinum heima hjá sér. „Þetta voru töluverðar lóðningar og synd að geta ekki kastað strax. Þegar veðrið gekk niður var megnið af loðnunni gengið upp á grynningarnar norður úr Norðfjarðarhorni þannig að við gátum bara kastað á lítinn hluta af þessu og síðan á smærri torfur í flóanum. Við köstuðum fjórum sinnum, fengum 370 tonn í fyrsta kasti en mun minna í hinum þremur. Alls fengum við þarna um 550 tonn og komum inn til löndunar fyrir miðnætti,“ sagði Tómas. „Ég hef aldrei heyrt um að kastað hafi verið á loðnu svona innarlega á flóanum. Norskt skip kastaði á loðnu í mynni flóans fyrr í þessum mánuði og fékk 70 tonn, en við vorum langt inni á flóa,“ sagði Tómas að lokum.
 
Jón Már Jónsson, framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Síldarvinnslunni, sagði að loðnan sem Beitir kom með hafi hentað vel til frystingar og ferskara hráefni væri vart hægt að hugsa sér. Loðnan væri heldur smærri en sú sem fæst suður af landinu, en hún væri að öðru leyti ágæt, átulaus og hrognafyllingin 22%. Strax og Beitir kom að landi hófst löndun á aflanum og er hann frystur á Japan.
 
Af öðrum loðnuskipum Síldarvinnslunnar er það að frétta að Börkur NK fyllti í gærkvöldi og er á leið til Seyðisfjarðar með um 2.500 tonn. Bjarni Ólafsson AK er síðan  á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 1.600 tonn sem hann fékk út af Alviðru. 
 
Myndirnar með fréttinni tók Ísak Fannar Sigurðsson.
 
Beitir NK fékk um 550 tonn af loðnu á Norðfjarðarflóa í gær
 
Beitir NK fékk um 550 tonn af loðnu á Norðfjarðarflóa í gær
 
 
 

Hörkufiskirí hjá Eyjunum

Vestmannaey VE heldur til veiða. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE heldur til veiða. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað afar vel frá því að verkfalli lauk. Vestmannaey er komin með um 160 tonn í þremur veiðiferðum og Bergey 105 tonn í tveimur. Helmingur afla skipanna er þorskur en hinn helmingurinn er blanda af ýsu, karfa og ufsa. Heimasíðan sló á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar, skipstjóra á Vestmannaey, og spurðist fyrir um fiskiríið. „Við erum búnir að fara þrjá túra og höfum aflað afar vel. Það tók 30 tíma að fá í fullan bátinn í fyrsta túrnum og 36 tíma í öðrum. Við vorum síðan kallaðir inn í þriðja túr en vorum þá komnir með eitthvað í kringum 30 tonn á 12 tímum. Við erum að fá þetta við bæjardyrnar, erum 1 til 1 ½ tíma frá Eyjum á miðin. Þetta er fallegur og góður fiskur sem veiðist núna. Hann kemur á þetta svæði til hrygningar um þetta leyti en er þó óvenju snemma á ferðinni í ár. Þetta er hefðbundinn göngufiskur sem verður væntanlega á þessum slóðum fram í maí. Vissulega er þessi veiði óvenju öflug miðað við árstíma en við erum í góðum málum og reyndar alsælir. Það er svo sannarlega gott að fá að taka aðeins á því,“ sagði Birgir.
 
Aflinn af Vestmannaey og Bergey fer að hluta til á markað í Bretlandi og Þýskalandi en eins fer hann til vinnslu víða innanlands.

Loðnan er óvenju stór og vel á sig komin

Líneik Haraldsdóttir og Takaho Kusayanagi, sem að öllu jöfnu er kallaður Kusa, að gæðameta loðnu. Japanskir kaupendur eru afar ánægðir með þá loðnu sem nú veiðist. Ljósm. Hákon ErnusonLíneik Haraldsdóttir og Takaho Kusayanagi, sem að öllu jöfnu er kallaður Kusa, að gæðameta loðnu. Japanskir kaupendur eru afar ánægðir með þá loðnu sem nú veiðist. Ljósm. Hákon ErnusonLoðnan sem veiðist um þessar mundir er óvenju stór og falleg og vel á sig komin. Slík loðna hefur ekki sést lengi og ástand hennar hefur svo sannarlega þaggað niður þá svartsýnisumræðu um loðnustofninn sem hefur verið áberandi um skeið. Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað hefur vinnsla á loðnu til manneldis verið samfelld frá því að veiðar hófust. Skipin koma með kælda loðnuna að landi og unnið er á vöktum við flokkun, pökkun og frystingu á henni. Frosinni loðnunni er síðan staflað upp í frystigeymslum og innan tíðar mun henni verða skipað út. Stærstur hluti loðnunnar er frystur á Japansmarkað og japanskir fulltrúar kaupenda fylgjast grannt með framleiðslunni. Það sem flokkast frá við frystinguna fer síðan til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðjunni. Gera má ráð fyrir að vinnsla á loðnuhrognum hefjist fljótlega en góð eftirspurn er eftir þeim og litlar hrognabirgðir fyrirliggjandi.
 
Þó svo að megináherslan sé lögð á manneldisvinnsluna er svo knappur tími til að ná loðnukvótanum að gera má ráð fyrir að verulegur hluti aflans fari beint til vinnslu á fiskimjöli og lýsi.   

Fiskvinnsla hafin á Seyðisfirði

Vinnsla er hafin í fiskvinnslu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla er hafin í fiskvinnslu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla hófst í fiskvinnslu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði í gær en þar hefur engin vinnsla farið fram frá því um miðjan desember vegna sjómannaverkfallsins. Byrjað var að vinna fisk af Vestmannaey VE og síðan kom fiskur af Barða NK sem landaði í gær. Þá er gert ráð fyrir að Gullver NS landi á Seyðisfirði á morgun.
 
Ómar Bogason framleiðslustjóri í fiskvinnslunni sagði að það væri einkar ánægjulegt að sjá fólk koma til vinnu á ný. „Það var létt yfir fólki þegar það kom til starfa og allir virtust afar fegnir að þessu langa verkfalli væri lokið. Hér var byrjað með hefðbundnum hætti og fyrstu fersku hnakkarnir fóru með Norrænu í gær,“ sagði Ómar.

Norsk loðnuskip lönduðu 6.500 tonnum í Neskaupstað

Norsk loðnuskip í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonNorsk loðnuskip í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonNorsk loðnuskip lönduðu 6.500 tonnum hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað fyrr í þessum mánuði. Fyrsti báturinn landaði afla 5. febrúar en sá síðasti hinn 17. þannig að allur þessi afli kom á land á tveimur vikum. Megnið af aflanum fór til manneldisvinnslu en fyrir kom að of mikil áta var í loðnunni og þá var henni landað í fiskimjölsverksmiðjuna.  
Loðnulandanir norsku bátanna skiptu miklu máli og sköpuðu verkefni fyrir fiskvinnslufyrirtækin á sama tíma og íslenski flotinn lá bundinn við bryggju vegna sjómannaverkfallsins. Vinnslan á þessum tíma var einkar mikilvæg fyrir starfsfólkið sem annars hefði verið aðgerðalaust heima.
 
Alls höfðu norsk skip heimild til að veiða 59.500 tonn af loðnu við Ísland á vertíðinni og gengu veiðarnar vel. Nú er veiðum þeirra lokið og þau hafa kvatt Íslandsmið að sinni. 

Blængur heldur væntanlega til veiða í kvöld

Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theodór Haraldsson skipstjórar á Blængi NK. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafur Hjálmarsson og Theodór Haraldsson skipstjórar á Blængi NK.
Ljósm. Hákon Ernuson
Um hádegisbil í gær kom frystitogarinn Blængur NK til heimahafnar í Neskaupstað að loknum gagngerum breytingum og endurbótum fyrst í Póllandi og síðan á Akureyri. Síldarvinnslan festi kaup á Blængi árið 2015 en í marsmánuði 2016 hélt skipið til Gdansk í Póllandi þar sem framkvæmdir hófust strax. Í Póllandi var skipið sandblásið og málað hátt og lágt, allar vistarverur áhafnar voru endurnýjaðar og eins allir innviðir í brúnni. Þá var tækjabúnaður í brú endurnýjaður að miklu leyti og lestinni breytt þannig að unnt væri að vinna þar á lyftara, enda gert ráð fyrir að allur fiskur yrði settur á bretti. Hliðarskrúfa var sett í skipið, öll lýsing utandyra endurnýjuð og skipt um það sem var farið að gefa sig. Allur vinnslubúnaður á millidekkinu var fjarlægður og það einnig sandblásið og málað.
 
Blængur kom heim frá Póllandi í lok júlí en í byrjun ágúst hélt skipið til Akureyrar þar sem vinna hófst á millidekki hjá Slippnum ehf. Hluti af búnaði á millidekki kom úr Barða NK en annað var keypt nýtt eða smíðað af Slippnum. Gert er ráð fyrir að frystigetan verði 1.800 kassar á sólarhring eða 38 tonn af afurðum og er þá miðað við vinnslu á karfa.
 
Skipstjórar á Blængi eru þeir Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theodór Haraldsson. Fréttamaður heimasíðunnar hitti þá að máli en þá var verið að taka veiðarfæri, umbúðir og bretti um borð í skipið. Sögðu þeir að gert væri ráð fyrir að skipið héldi til veiða í kvöld og þá yrði farið í stuttan túr, viku eða svo. Sögðu þeir að ætlunin væri að prófa allan búnað í skipinu í túrnum og að honum loknum yrði sinnt smávægilegum frágangi á millidekki ásamt því að sett yrði upp ný brettavefja.
 
Þeir Bjarni Ólafur og Theodór sögðust vera afar ánægðir með skipið og allar þær endurbætur sem hefðu verið gerðar á því. Skipið væri í alla staði fínt, snyrtilegt og vel búið. Sögðu þeir að það legðist vel í mannskapinn að halda til veiða eftir langt hlé og væru menn spenntir að sjá hvernig  búnaðurinn um borð myndi reynast.   
Vinnslubúnaður á millidekki Blængs NK   Ljósm.Hákon ErnusonVinnslubúnaður á millidekki Blængs NK. Ljósm. Hákon Ernuson
 
 

Fyrsta loðnan til Seyðisfjarðar

Börkur NK að landa á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar BogasonBörkur NK að landa á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar BogasonBörkur NK kom til Seyðisfjarðar í morgun með 2.500 tonn af loðnu og hófst strax löndun í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri segir að það sé ávallt mikið fagnaðarefni þegar hráefni berst til verksmiðjunnar. „Í fyrra fengum við enga loðnu en árið 2015 fengum við 36.000 tonn þannig að það er mjög misjafnt hve mikið hráefni berst hingað á loðnuvertíðum. Verksmiðjan var ræst strax og löndun hófst í morgun og vonandi verður nóg að gera næstu vikurnar. Hjá okkur var verksmiðjan síðast í gangi í desembermánuði en þá barst kolmunni til vinnslu,“ sagði Gunnar.

Síldarvinnsluskipin á landleið með 5.200 tonn af loðnu 20 tímum eftir að verkfalli lauk

Loðnu dælt um borð í Beiti NK í dag. Ljósm. Sigurjón M. JónusonLoðnu dælt um borð í Beiti NK í dag. Ljósm. Sigurjón M. JónusonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir eru á landleið eftir að hafa mokveitt loðnu á miðunum suður af landinu. Skipin héldu til veiða í gærkvöldi og voru komin á miðin um klukkan fimm í nótt. Beitir fékk um 2.700 tonn í þremur köstum og lagði af stað í land um klukkan fjögur í dag. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði að mikið af loðnu væri að sjá á stóru svæði. „Við fengum aflann í þremur köstum innan við Tvísker. Þetta voru tvö eitt þúsund tonna köst og eitt minna. Loðnan er gullfalleg, stór og fín. Við erum með 1.500 tonn kæld og fer sú loðna til manneldisvinnslu. Við ættum að vera í Neskaupstað um klukkan tvö í nótt,“ sagði Tómas.
 
Börkur fyllti sig stuttu eftir að Beitir lagði af stað í land, en hann mun landa á Seyðisfirði. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri sagði að loðnuveiðin hefði verið ævintýraleg í dag. „Hér er mjög mikið af loðnu á ferðinni og hún æðir vestur eftir. Við vorum að nálgast Ingólfshöfðann í síðasta kastinu. Við erum með 2.500 tonn og fengum 1.400 tonn í einu kastinu. Það er stærsta kast sem ég hef upplifað,“ sagði Hjörvar. 

Loðnukvótinn

Myndin tekin um borð í Beiti NK á loðnumiðunum í dag. Ljósm. Sigurjón M. JónusonMyndin tekin um borð í Beiti NK á loðnumiðunum í dag. Ljósm. Sigurjón M. JónusonEins og flestum er kunnugt ríkti svartsýni hvað varðaði loðnuveiðar í janúar sl. Þá var gefinn út heildarkvóti upp á 57 þúsund tonn. Mælingin sem úthlutun kvótans byggði á var þó álitin óviss þar sem slæmt veður og hafís höfðu truflað loðnuleitina verulega. Ráðist var í nýja mælingu sem fram fór dagana 3. – 11. febrúar og var hún kostuð af útgerðum loðnuskipa. Skilaði hún miklu jákvæðari niðurstöðu og í kjölfar hennar var gefinn út heildarkvóti upp á 299 þúsund tonn. Þessar mælingar eru sögulegar að því leyti að veiðiskip var notað til þeirra með rannsóknamönnum frá Hafrannsóknastofnun  um borð. Árið 2008 voru gögn frá veiðiskipum að vísu notuð til að meta loðnustofninn, en skipin tóku þá ekki þátt í skipulegri leit ásamt skipum Hafrannsóknastofnunar eins og grænlenska skipið Polar Amaroq gerði í báðum leitunum á þessu ári. Þorsteinn Sigurðsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir að samstarfið við skipstjóra og áhöfn Polar Amaroq hafi verið hreint frábært. „Þeir Polarmenn sýndu verkefninu mikinn áhuga og allt samstarf við þá gekk eins og best verður á kosið. Skipið er vel búið tækjum til leitar, en er hins vegar ekki með fellikjöl eins og æskilegt er. Í stað fellikjalarins greip Geir Zoёga skipstjóri til þess ráðs að dæla einum 1200 tonnum af sjó í skipið til að lækka það í sjónum og kom það sér vel. Útgerðir loðnuskipanna eiga heiður skilinn fyrir að kosta síðari leitina, sem hefði sennilega aldrei verið farin ef þær hefðu ekki tekið ákvörðun um að greiða þær 25 milljónir sem þurfti. Síðari leitin leiddi til þess að nú fáum við loðnuvertíð sem skapar sennilega 16 milljarða í verðmæti í staðinn fyrir 1 milljarð eða tæplega það,“ sagði Þorsteinn Sigurðsson.
 
Þessi kvótaaukning skiptir miklu máli fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og þjóðarbúið og nú er loðnuveiði íslenskra skipa hafin af fullum krafti að afloknu sjómannaverkfalli. Norsk skip, sem verið hafa að veiðum við landið, hafa landað töluverðri loðnu hér á landi og skipti það miklu máli á meðan á verkfallinu stóð.
 
Hlutur Síldarvinnsluskipanna og Bjarna Ólafssonar AK í loðnukvótanum er tæplega 18,5% eða 34.337 tonn, en Bjarni Ólafsson er í eigu dótturfélags Síldarvinnslunnar. Þá er hlutur viðskiptabáta Síldarvinnslunnar tæplega 12% af kvótanum, en þeir eru  Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og grænlenska skipið Polar Amaroq. Hafa ber í huga að viðskiptabátarnir eru allir vinnsluskip. Samtals er kvóti Síldarvinnsluskipanna og viðskiptabátanna 71.731 tonn.
 
Aðstæður á mörkuðum fyrir loðnuafurðir eru misjafnar. Verð á mjöli og lýsi hefur farið lækkandi að undanförnu og enn gerir hið svonefnda Rússabann fyrirtækjunum erfitt fyrir, en sala á frystum hæng á Austur-Evrópu verður takmörkuð vegna þess. Japanir eru hins vegar áhugasamir um kaup á hrognafullri loðnu og loðnuhrognum . Fulltrúar japanskra kaupenda hafa verið í Neskaupstað að undanförnu og fylgst með framleiðslu á frystri loðnu úr norskum veiðiskipum. 

Hjólin fara að snúast á ný að loknu verkfalli

Skipverjar á Barða NK komnir með kostinn um borð áður en lagt var úr höfn í nótt. Ljósm.Hákon ErnusonSkipverjar á Barða NK komnir með kostinn um borð áður en lagt var úr höfn í nótt.
Ljósm.Hákon Ernuson
Þegar fyrir lá í gærkvöldi að sjómenn höfðu samþykkt kjarasamning og verkfalli væri lokið færðist svo sannarlega líf yfir hafnir landsins. Skipin héldu til veiða hvert af öðru og lá mörgum mikið á. Börkur og Beitir héldu til loðnuveiða strax upp úr klukkan 10 og um líkt leyti hélt Bjarni Ólafsson á loðnumiðin. Ísfisktogararnir Vestmannaey og Bergey losuðu landfestar upp úr klukkan 11, Gullver um miðnætti og Barði um klukkan eitt eftir miðnætti. Frystitogarinn Blængur mun leggja af stað frá Akureyri til Neskaupstaðar í kvöld en lokið er miklum endurbótum á skipinu sem hafa farið fram í Póllandi og á Akureyri.
 
Í morgun voru þegar farnir að berast aflafréttir af loðnuskipunum. Börkur fékk 600 tonn í fyrsta kasti og Beitir 1.000 tonn. Eru þeir að veiða mjög grunnt vestur af Hornafirði. Polar Amaroq er væntanlegur til Neskaupstaðar síðar í dag með 500 tonn af loðnu til manneldisvinnslu en einnig er fryst um borð í skipinu. Stefnt er að því að vinnsla í fiskvinnslunni á Seyðisfirði hefjist á miðvikudag og víst er að fiskimjölsverksmiðjan í Neskaupstað hefji vinnslu í dag og verksmiðjan á Seyðisfirði mjög fljótlega. 

Loðnuveiðar norsku skipanna skapa margvísleg verkefni hér á landi

Norska loðnuskipið Harvest kemur til Neskaupstaðar með nót til viðgerðar. Ljósm. Hákon ErnusonNorska loðnuskipið Harvest kemur til Neskaupstaðar með nót til viðgerðar.
Ljósm. Hákon Ernuson
Að undanförnu hafa tugir norskra skipa lagt stund á loðnuveiðar við landið á sama tíma og íslenski loðnuflotinn hefur verið bundinn við bryggju vegna verkfalls sjómanna. Mörg norsku skipanna hafa landað afla sínum hér á landi og því er loðna fryst til manneldis í ríkum mæli. Þannig hefur starfsfólk þeirra fyrirtækja sem frysta loðnu fengið verkefni en fólkið hefði annars verið verkefnalaust í verkfallinu. Þau fyrirtæki sem þjónusta loðnuflotann hafa einnig fengið verkefni vegna loðnuveiða Norðmanna. Í morgun kom til dæmis loðnuskipið Harvest til Neskaupstaðar með nót sem þurfti viðgerða við. Starfsmenn Fjarðanets tóku á móti skipinu og munu koma nótinni í lag á sem skemmstum tíma. Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets, sagði að Harvest hefði fengið nótina í skrúfuna í öðru kasti hér við land og ekki hafi verið um annað að ræða en að koma í land og láta lagfæra skemmdirnar. „Það kemur sér svo sannarlega vel fyrir okkur að fá verkefni af þessu tagi í verkfallsástandinu, en annars hefur ekki verið mikið um veiðarfæratjón hjá Norðmönnunum vegna þess að tíðarfarið hefur verið svo einstaklega gott,“ sagði Jón. „Nú bregður hins vegar svo við að spáð er alvöru vetrarveðri eftir nokkra daga en hafa ber í huga að síðasti dagurinn sem Norðmenn mega veiða hér við land er 22. febrúar,“ sagði Jón að lokum.
 
Þegar þetta er skrifað hefur bjartsýni manna um lausn á kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna aukist til muna. Samningur á milli deiluaðila liggur fyrir en beðið er eftir svörum ríkisvaldsins til lausnar deilunni.

Roaldsen fékk loðnu á Norðfjarðarflóa

Norski loðnubáturinn Roaldsen bíður löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonNorski loðnubáturinn Roaldsen bíður löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonNorski loðnubáturinn Roaldsen kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 500 tonn af loðnu. Hann var á leið til löndunar með 430 tonn þegar hann rakst á loðnutorfu yst á Norðfjarðarflóa og kastaði á hana. Um 70 tonn af góðri loðnu fengust í kastinu. Erling Roaldsen, skipstjóri, segir að það hafi komið á óvart að rekast á loðnutorfu þarna, en aflinn hafði að öðru leyti fengist um 9 mílur frá landi norður af Glettinganesi. Erling sagði að Roaldsen hefði komið á miðin við Ísland 8. febrúar og þetta væri önnur veiðiferð skipsins. „Við lönduðum fyrst 400 tonnum á Fákrúðsfirði og erum því búnir að fá 900 tonn. Kvótinn okkar er 1200 tonn, en við sjáum um að veiða kvóta tveggja skipa,“ sagði Erling. „Við höfum séð töluvert af loðnu, einkum fyrst eftir að við komum á miðin. Og það er mjög mikið um hval á miðunum en hvalurinn fylgir loðnunni að venju. Norsku bátarnir hafa verið að fiska víða. Framan af veiddu þeir mest úti af Norðurlandi vegna þess að það var mikil áta í loðnunni sem veiddist fyrir austan. Meirihluti bátanna fara til Noregs með aflann en aðrir landa hér á landi og það höfum við gert. Við megum veiða loðnu hér við Ísland til og með 22. febrúar en við vonumst eftir að fá að veiða lengur. Nú eru norsku bátarnir búnir að veiða 37 þúsund tonn af 59 þúsund tonnum sem þeir hafa heimild til að veiða. Þeir eiga því eftir að veiða 22 þúsund tonn,“ sagði Erling að lokum.

Gert er ráð fyrir að byrjað verði að landa úr Roaldsen í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar síðdegis í dag eða þegar löndun úr Havfisk lýkur. Havfisk var með 500 tonn rétt eins og Roaldsen.

 Erling Roaldsen skipstjóri. Ljósm: Hákon Ernuson Erling Roaldsen skipstjóri. Ljósm: Hákon Ernuson

 

 

Storeknut með 1850 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar

Storeknut siglir inn Norðfjörð í dag. Ljósm. Smári GeirssonStoreknut siglir inn Norðfjörð í dag. Ljósm. Smári GeirssonÍ dag kom norska skipið Storeknut með 1850 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar. Aflinn fékkst í lögsögu Evrópusambandsins vestur af Írlandi. Tor Magne Drønen, skipstjóri, sagði að vel hefði gengið að veiða og hafi aflinn verið tekinn í fjórum holum. „Þarna var mikið að sjá, en það voru ekki margir bátar á miðunum. Við vorum til dæmis eini norski báturinn,“ sagði Tor Magne. Rúmlega þriggja sólarhringa sigling var af miðunum til Neskaupstaðar og eftir löndun verður strax haldið til kolmunnaveiða á ný. Kolmunnakvóti Storeknut mun nást í fjórum veiðiferðum, þannig að skipið á þrjá túra eftir.

LungA heimsækir fiskvinnsluna á Seyðisfirði

Gestirnir frá LungA-skólanum. Ljósm. Ómar BogasonGestirnir frá LungA-skólanum. Ljósm. Ómar BogasonSl. fimmtudag heimsóttu kennarar og nemendur LungA skólans á Seyðisfirði fiskvinnslu Síldarvinnslunnar þar. Hluti hópsins var í fyrsta skipti að stíga fæti inn í fiskvinnsluhús en kennarar og nemendur skólans koma víða að, t.d. frá Singapore, Hong Kong, Danmörku, Bandaríkjunum og Bretlandi.
 
LungA School er alþjóðleg menntastofnun á Seyðisfirði sem hefur fest rætur og setur mikinn svip á bæjarlífið yfir vetrarmánuðina. Í skólanum er sinnt list af öllu tagi. Þrátt fyrir að engin vinnsla sé í fiskvinnsluhúsinu þá var hópurinn áhugasamur og vildi fræðast um allt sem fyrir augu bar. Þau Ómar Bogason framleiðslustjóri og Árdís Sigurðardóttir yfirverkstjóri tóku á móti gestunum og buðu þeim upp á veitingar. Að sögn Ómars vöknuðu margar spurningar hjá þeim og var meðal annars mikið spurt um fyrirkomulag veiðanna, vinnsluaðferðir og sjálfbærni greinarinnar.

Áfram fryst úr norskum loðnubátum og frystri loðnu landað

Norðfjarðarhöfn í morgun. Norskir loðnubátar. Ljósm. Hákon ErnusonNorðfjarðarhöfn í morgun. Norskir loðnubátar. Ljósm. Hákon ErnusonSl. fimmtudag og föstudag komu fimm norskir loðnubátar með afla til Neskaupstaðar og var unnið á vöktum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar alla helgina. Lokið var við að vinna aflann úr síðasta bátnum úr þessum hópi sl. nótt. Ekkert lát er á komu norskra báta og hafa fimm bátar til viðbótar tilkynnt komu sína og eru þeir samtals með um 1700 tonn. Fyrstu bátarnir úr þeim hópi eru þegar komnir til hafnar.  Bátarnir eru eftirtaldir: Havfisk með 460 tonn, Svanlaug Elise með 350 tonn, Havsnurp með 310 tonn, Rogne með 320 tonn og Smaragd með 250 tonn. Bátarnir hafa fengið aflann úti fyrir Norður- og Norðausturlandi.
 
Vel gengur að vinna loðnuna í fiskiðjuverinu og er hráefnið ágætt.
 
Polar Amaroq landaði fullfermi af frosinni loðnu, 610 tonnum, í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. laugardag en skipið hefur að undanförnu verið við loðnuleit ásamt því að leggja stund á veiðar.

Fimm norskir loðnubátar með liðlega 2.200 tonn til Neskaupstaðar

Fimm norskir loðnubátar með liðlega 2.200 tonn til Neskaupstaðar
Norðfjarðarhöfn í dag. Norsk loðnuskip með afla og heimaskipin bundin vegna verkfalls. Ljósm. Hákon Ernuson
Loðnuveiðar norskra báta hafa gengið vel að undanförnu og streyma bátarnir inn á Austfjarðahafnir til löndunar. Í gær og nótt komu fjórir bátar til Neskaupstaðar: Brennholm með 500 tonn, Haugagut með 420 tonn, Gardar með 400 tonn og Nordfisk með 400 tonn. Í dag er síðan Talbor væntanlegur með 500 tonn.
 
Öll loðnan fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og að sögn Jóns Más Jónssonar, framkvæmdastjóra landvinnslu, er hráefnið miklu betra en það var fyrir nokkrum dögum þegar loðnan var full af átu. 

Barði NK í togararall

Barði NK er á leiðinni í sitt fyrsta rall. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK er á leiðinni í sitt fyrsta rall. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK mun taka þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar sem væntanlega mun hefjast síðar í þessum mánuði. Togararall hefur farið fram árlega frá 1985 og er það mikilvægur þáttur í árlegu mati á stofnstærð botnfiska við landið. Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu og varð niðurstaðan sú að auk Barða mun Ljósafell SU annast rallið ásamt hafrannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni.
 
Segja má að Barði sé arftaki Bjarts NK í rallinu en Bjartur tók samtals þátt í 26 röllum og hefur ekkert skip tekið oftar þátt í togararalli. Bjartur var seldur úr landi á síðasta ári og er því fjarri góðu gamni.
 
Í rallinu mun Barði toga á 182 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svonefndu norðaustursvæði en það er svæðið frá Kolbeinseyjarhrygg austur og suður um að Íslands-Færeyjahrygg. Gjarnan hefur verið gert ráð fyrir að rallið taki um tuttugu daga.

Fyrsta loðnan til Neskaupstaðar

Norsku loðnuskipin Gardar og Kings Bay í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ErnusonNorsku loðnuskipin Gardar og Kings Bay í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon Ernuson

Ole Toft, skipstjóri á Gardar. Ljósm. Hákon ErnusonOle Toft, skipstjóri á Gardar. Ljósm. Hákon ErnusonÍ gær komu tveir norskir bátar með loðnu til Neskaupstaðar. Gardar (áður Beitir NK) kom með um 300 tonn og Kings Bay með 600 tonn. Af

linn fékkst í nót um 30 mílur norðaustur af Langanesi. Mikil áta reyndist í loðnunni og því fór einungis takmarkað magn af afla Kings Bay til manneldisvinnslu og ekkert af afla Gardar. Heimasíðan ræddi við Ole Toft, skipstjóra á Gardar, og spurði hann um veiðarnar hingað til. „Við fórum frá Bergen 31. janúar og komum á miðin sl. fimmtudag. Þá var slæmt veður og við byrjuðum ekki að fiska fyrr en á laugardag. Við fengum um 300 tonn og komum til Neskaupstaðar í gær. Það var mikil áta í loðnunni þannig að hún var ekki frystingarhæf svo við lönduðum í fiskimjölsverksmiðjuna. Það hefur gengið ágætlega að fiska hjá norsku bátunum. Loðnan er stór 

 

og falleg en átan skemmir fyrir. Við á Gardar megum veiða 620 tonn af loðnu á Íslandsmiðum og við verðum að fiska í nót. Okkur er óheimilt að fiska í troll. Það eru 10 menn í áhöfn á nótinni,“ sagði Ole Toft. „Það eru margir Íslendingar sem þekkja Gardar. Gardar hét áður Beitir og var frá Neskaupstað. Gamli Gardar heitir nú Polar Amaroq. Nú ætlum við að bíða hér í höfn í nokkra daga. Við vonumst síðan til að fá átulausa loðnu sem hæf verður til manneldisvinnslu, en fyrir slíkan afla ættum við að fá gott verð,“ sagði Ole Toft að lokum.

Polar Amaroq veiðir og leitar

Polar Amaroq GR 18-49 frá Tasiilaq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq GR 18-49 frá Tasiilaq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonÍ gær var greint frá því hér á heimasíðunni að grænlenska skipið Polar Amaroq hefði fengið 350-400 tonn af loðnu norðnorðaustur af Langanesi og væri hún fryst um borð í skipinu. Auk þess að veiða mun Polar Amaroq leita að loðnu og eru rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun um borð. Í morgun ræddi heimasíðan við Guðmund Hallsson stýrimann og sagði hann að tekið hefði verið eitt hol fyrir vinnsluna í gærkvöldi og fengust þá 250 tonn. Verið væri að vinna þann afla um borð en skipið væri nú byrjað að sigla eftir leitarleggjunum. Sagði Guðmundur að það hefði verið „ágætt að sjá“ á blettinum sem skipið var á í gær og nú yrði spennandi að sjá hvað kæmi út úr leitinni.
 
Í morgun mátti sjá fréttir í norskum miðlum um að norska skipið Fiskebas hefði fengið 165 tonn af loðnu við Ísland og væri á leiðinni til Fáskrúðsfjarðar með aflann.

Polar Amaroq kominn með 350-400 tonn af stórri og fallegri loðnu

Polar Amaroq fékk fyrstu loðnuna á vertíðinni og frystir um borð. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq fékk fyrstu loðnuna á vertíðinni og frystir um borð. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska skipið Polar Amaroq hélt til loðnuveiða og -rannsókna á þriðjudagskvöld, en um borð í skipinu eru rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun. Heimasíðan sló á þráðinn um hádegið í dag og spurði frétta. Bæði var rætt við Geir Zoёga skipstjóra og Guðmund Hallsson stýrimann. Þegar rætt var við þá félaga var skipið statt um 54 mílur norðnorðaustur af Langanesi á hefðbundinni loðnuslóð. Fram kom hjá þeim að í gær hefðu þeir orðið varir við töluvert af loðnu á þessum slóðum og kom það nokkuð á óvart ef tekið er tillit til þeirra mælinga sem áður hafa farið fram. Nokkuð erfitt hafi verið að meta magn en tekin voru tvö hol í gærkvöldi og nótt og fengust þá 350-400 tonn af stórri og fallegri loðnu og reyndist hrognafyllingin vera á bilinu 10-11%. Fyrra holið var mjög stutt en hið síðara um fjórir tímar. Vel gengur að frysta loðnuna um borð í Polar Amaroq en skipið getur fryst hátt í 200 tonn á sólarhring.
 
Gert er ráð fyrir að rannsóknaskip frá Hafrannsóknastofnun haldi til loðnuleitar á morgun en að sögn þeirra Polar-manna er veður heldur leiðinlegt á leitarsvæðinu um þessar mundir. Þá er von á norskum og færeyskum skipum á næstunni og þá fjölgar þeim sem svipast um eftir loðnunni.
 
Geir Zoёga sagði að menn hresstust alltaf þegar fyrsta loðnan kæmi um borð. „Maður verður glaður og bjartsýnn þegar loðnulyktin finnst og við höfum heyrt að skip hafi orðið vör við loðnu víðar fyrir norðan land. Vonandi verður loðnuvertíðin miklu betri en gert hefur verið ráð fyrir,“ sagði Geir að lokum.

Undirflokkar