Mikilvægar framkvæmdir

Höfnin í Neskaupstað en þar er oft þröngt á þingi. Ljósm. Guðlaugur BirgissonUm þessar mundir eru framkvæmdir að hefjast við gerð Norðfjarðarganga og á sama tíma er unnið að stækkun og breytingum á höfninni í Neskaupstað. Báðar þessir framkvæmdir eru samfélagslega mikilvægar og hafa mikla þýðingu fyrir Síldarvinnsluna og starfsemi sem tengist henni.

Í vikunni var hafist handa við uppsetningu vinnubúða á Eskifirði fyrir gangagerðarmenn en stefnt er að því að hefja framkvæmdir Eskifjarðarmegin um miðjan nóvember. Framkvæmdir við gangagerðina Norðfjarðarmegin munu hefjast eftir áramót en nú er unnið að gerð nýrrar brúar yfir Norðfjarðará og lagningu vegarslóða að gangamunnanum. Gert er ráð fyrir að 35-40 manns muni starfa við gangagerðina, helmingurinn íslenskir starfsmenn Suðurverks og helmingurinn tékkneskir starfsmenn Metrostav. Göngin verða 7,9 km löng og eru verklok áætluð í september 2017. Tilboð verktakafyrirtækjanna í gerð ganganna hljóðaði upp á 9,3 milljarða króna. 

Hin nýju Norðfjarðargöng munu valda byltingarkenndum breytingum í samgöngumálum á Austurlandi því með tilkomu þeirra þarf ekki lengur að fara yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng sem eru í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Hvað snertir Síldarvinnsluna ber að hafa í huga að þó langmest af afurðum sé flutt á brott með skipum er drjúgum hluta þeirra ekið í gámum til útflutnings frá Reyðarfirði og Seyðisfirði. Að undanförnu hafa um 1000 gámar á ári verið fluttir landleiðis yfir Oddsskarð frá Neskaupstað eða um 20 gámar á viku að jafnaði. Flutningabílarnir sem flytja gámana þurfa að nota sérbúna vagna til að komast í gegnum Oddsskarðsgöng auk þess sem ferðin yfir fjallveginn er bæði erfið og áhættusöm. Hin nýju Norðfjarðargöng munu gjörbreyta allri aðstöðu til flutninga á afurðum Síldarvinnslunnar landleiðina frá Neskaupstað auk þess sem kostnaður og áhætta vegna þeirra mun minnka mikið.

Fyrr á þessu ári hófust framkvæmdir við stækkun og umbætur á Norðfjarðarhöfn og munu þær hafa í för með sér afar jákvæðar breytingar fyrir starfsemi Síldarvinnslunnar. Vörur sem fóru um Norðfjarðarhöfn á árinu 2012 voru 140.040 tonn og voru þær mestmegnis sjávarafurðir.  Aflinn sem landað var á árinu nam 223.182 tonnum, þannig að Norðfjarðarhöfn er á meðal helstu fiskihafna landsins. Vegna afar mikillar umferðar skipa og báta um höfnina hafa oft komið upp erfiðar aðstæður þannig að þurft hefur að forfæra skip og fargangsraða afgreiðslu þeirra. Af þessum ástæðum er orðið mjög brýnt að stækka höfnina og gera á henni ýmsar lagfæringar þannig að yfirstandandi framkvæmdir eru hinar þörfustu. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er um 550 milljónir króna og fela þær meðal annars í sér eftirfarandi: Öll aðstaða í höfninni verður rýmri en nú er, viðlegurými skipa verður stækkað, ný smábátahöfn verður gerð og höfnin verður dýpkuð. Framkvæmdirnar munu bæta mjög þá aðstöðu sem umsvif Síldarvinnslunnar byggja á og reyndar mun höfnin verða rýmri og betri fyrir alla notendur hennar.

Gera má ráð fyrir að framkvæmdirnar við höfnina taki um tvö ár og mun töluvert rask verða áberandi á hafnarsvæðinu á meðan þær standa yfir. Það er hafnarsjóður Fjarðabyggðar sem stendur fyrir framkvæmdunum.

Hörku makrílveiði eystra

Úr fiskiðjuverinu í sumar í síldar- og makrílvinnslu. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirUm helgina var hörku makrílveiði austur af landinu. Beitir NK er að landa um 500 tonnum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar  í Neskaupstað og Börkur NK kom til hafnar í morgun með álíka afla. Á undan þeim hafði Bjarni Ólafsson AK landað tæplega 600 tonnum til vinnslu, en meirihluti þess afla var síld.

Makríllinn sem skipin koma með að landi er mjög góður, sterkari og átuminni en áður og vel gengur að vinna hann.

Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti segir að í reynd hafi verið afar góð makrílveiði síðustu daga úti fyrir Austfjörðum. Þó sé veiðin misjöfn eftir því hvenær sólarhringsins togað er; það er minna að fá yfir daginn en góður afli í myrkrinu. Í síðustu veiðiferð tók Beitir þrjú hol og voru þau býsna misjöfn eftir því hvenær togað var. Í fyrsta holi fengust 150 tonn, 30 tonn í öðru og rúm 300 í því þriðja. Um var að ræða nánast hreinan makríl en síldarbátarnir eru einnig að fá góðan afla bæði austar og uppi á grunnum. Til dæmis hefur góður síldarafli fengist bæði í Reyðarfjarðar- og Norðfjarðardýpi.


Síldarvinnslan styrkir Verkmenntaskólann

Frá aðalfundi Síldarvinnslunnar 5. september. Ljósm. Smári GeirssonÁ aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. fimmtudag tilkynnti Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður að stjórnin hefði ákveðið að veita Verkmenntaskóla Austurlands myndarlegan styrk til að koma upp aðstöðu og búnaði vegna fyrirhugaðs náms í vélstjórn við skólann.

Elvar Jónsson skólameistari veitti styrknum móttöku og þakkaði þann skilning og áhuga sem Síldarvinnslan sýndi skólanum og þeim verkefnum sem hann er að fást við. Fram kom í máli Elvars að tengsl skólans við atvinnulífið væru ómetanleg og þá skipti ekki síst máli tengslin við hin öflugu sjávarútvegsfyrirtæki á starfssvæði skólans. Þá upplýsti Elvar að á þessu skólaári væri unnið að undirbúningi þess að unnt yrði að hefja vélstjórnarnám við skólann en slíkt nám yrði skipulagt í tengslum við nám í vélvirkjun. Fyrirhugað er að nám í vélstjórnarfræðum hefjist haustið 2014 og þá verður allur nauðsynlegur vél- og tæknibúnaður sem nota þarf við kennsluna að vera til staðar. Slíkur búnaður er dýr og því kemur styrkur Síldarvinnslunnar að góðum notum. 


Stjórnin skiptir með sér verkum

Stjórn Síldarvinnslunnar ásamt framkvæmdastjóra, frá vinstri: Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri, Freysteinn Bjarnason, Anna Guðmundsdóttir, Halldór Jónasson varamaður, Björk Þórarinsdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður,Arna Bryndís Baldvins McClure varamaður og Ingi Jóhann Guðmundsson varaformaður.Að afloknum aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. fimmtudag hélt nýkjörin stjórn fund þar sem hún skipti með sér verkum. Þorsteinn Már Baldvinsson var kjörinn stjórnarformaður og Ingi Jóhann Guðmundsson varaformaður. Þau Anna Guðmundsdóttir,Freysteinn Bjarnason og Björk Þórarinsdóttir eru meðstjórnendur. Varamenn eru Arna Bryndís Baldvins McClure og Halldór Jónasson.


Þrjár konur kjörnar í stjórn og varastjórn Síldarvinnslunnar

Konur í stjórn Síldarvinnslunnar frá vinstri: Anna Guðmundsdóttir, Björk Þórarinsdóttir og Arna Bryndís Baldvins McClure. Ljósm. Smári Geirsson Á aðalfundi Síldarvinnslunnar hf. sem haldinn var fimmtudaginn 5. september síðastliðinn urðu þau tímamót að konur voru í fyrsta sinn kjörnar í stjórn og varastjórn félagsins. Þær Anna Guðmundsdóttir og Björk Þórarinsdóttir voru kjörnar í aðalstjórn og Arna Bryndís Baldvins McClure í varastjórn.

Á aðalfundinum var samþykkt að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm en kynjahlutföllin í nýju stjórninni eru í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Hin nýkjörna  stjórn Síldarvinnslunnar er þannig skipuð:
  Anna Guðmundsdóttir
  Björk Þórarinsdóttir
  Freysteinn Bjarnason
  Ingi Jóhann Guðmundsson
  Þorsteinn Már Baldvinsson

Varamenn:
  Arna Bryndís Baldvins McClure
  Halldór Jónasson

Síldarvinnslan var stofnuð 11. desember 1957 þannig að konur koma fyrst að stjórnun félagsins eftir 56 ára starf. Það eru svo sannarlega ánægjuleg tíðindi.

Fréttatilkynning 05.09.2013

Rekstur Síldarvinnslunnar hf. á árinu 2012:
Hagnaður Síldarvinnslunnar 7 milljarðar króna

-Hagnaður Síldarvinnslunnar fyrir afskriftir og fjármagnskostnað 9,6 milljarðar króna
-Hagnaður fyrir skatta 8,6 milljarðar króna
-Greiddur tekjuskattur og veiðileyfagjald ásamt öðrum opinberum gjöldum nema 3,1 milljarði króna
-Eiginfjárhlutfall er 59%
-Fiskiðjuverið tók á móti 80 þúsund tonnum af hráefni
-Um frystigeymslur félagsins fóru 90 þúsund tonn af afurðum
-Framleiðsla landvinnslunnar nam 106 þúsund tonnum
 

Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2012 voru alls 24 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 14,3 milljörðum króna. EBITDA var 9,6 milljarðar króna. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 260 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 8,6 milljörðum króna. Reiknaðir skattar námu 1680 milljónum króna og var hagnaður ársins því tæpir 7 milljarðar króna.


Skattar
Síldarvinnslan greiðir 3,1 milljarð til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur á árinu er 1600 milljónir króna en önnur opinber gjöld námu 650 milljónum. Veiðigjöld námu 850 milljónum á síðasta fisveiðiári.


Fjárfestingar
Fjárfestingar Síldarvinnslunnar hafa miðað að því að efla manneldisvinnslu félagsins og auka hagkvæmni og vinnslutækni í fiskimjölsverksmiðjunum.

Fiskimjölsverksmiðjan í Neskaupstað var rafvædd að fullu og nýtir eingöngu innlenda umhverfisvæna raforku. Á árinu var Börkur NK 122 keyptur. Skipið er mjög vel búið til kælingar á afla og styður koma hans við manneldisvinnslu félagsins og stuðlar að aukinni verðmætasköpun úr uppsjávarheimildum. Í fiskiðjuverinu var bætt við afkastagetuna með uppsetningu á frystiskápum og stækkun á frystikerfi. Heildarfjárfestingar félagsins námu 3,1 milljarði króna. Á árinu 2012 var undirritaður samningur um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Berg-Hugin. Bergur-Huginn gerir út tvo 29 metra togara, Vestmannaey VE 444 og Bergey VE 544. Kaupsamningurinn tók gildi þann 22. apríl sl. með samþykki Samkeppniseftirlitsins. Félagið varð hluti af samstæðu Síldarvinnslunnar frá 1. janúar 2013.


Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2012 voru bókfærðar á 36,9 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 13,6 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 15,0 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 21,9 milljarðar króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar ríflega 59%.


Starfsemi
Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipanna var 7.570 tonn, aflaverðmæti 2.050 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa félagsins var 140 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.660 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa félagsins var 6.680 milljónir króna og aflamagn 146.550 tonn á árinu.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 235 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2012. Framleidd voru 45 þúsund tonn af mjöli og 18 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 63 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 12.500 milljónir króna.
Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 43.000 tonn, þar vega síldarafurðir mest, síðan makrílafurðir og loks loðnuafurðir. Verðmæti framleiðslunnar var 8.100 milljónir króna.

Um frystigeymslurnar fóru 90 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals framleiðsla í landvinnslum félagsins nam 105.600 tonnum á árinu 2012 að verðmæti tæplega 21 milljarði króna.


Starfsmenn
Hjá Síldarvinnslunni starfa 230 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins voru 2.800 milljónir króna á árinu 2012 en af þeim greiða starfsmennirnir rúman milljarð í opinber gjöld.


Aðalfundur
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn fimmtudaginn 5. september. Í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins lagði stjórnin til að greiddur yrði 30% arður af hagnaði til hluthafa. Var það samþykkt.

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. fimmtudaginn 5. september 2013.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.
 
 

Togararnir koma og fara

Aðgerð um borð í Bjarti NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK landaði 97 tonnum í Neskaupstað í gær. Uppistaða aflans, eða 67 tonn, var þorskur  og 20 tonn  ufsi. Að sögn Jóhanns Arnar Jóhannssonar skipstjóra aflaðist jafnt og vel í veiðiferðinni. Þorskurinn var tekinn Utanfótar og á Herðablaðinu en ufsinn í Berufjarðarálnum. Bjartur mun halda til veiða á ný um hádegi á föstudag.

Frystitogarinn Barði NK mun koma til löndunar á föstudag með fullfermi af blönduðum afla. Um 70 tonn af aflanum er makríll, um 100 tonn ufsi og síðan lítilsháttar af þorski, karfa og grálúðu. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið vel og nánast allan tímann hafi verið ágætis kropp. Makríllinn var veiddur fyrir vestan land og var unnt að halda uppi fullri vinnslu á meðan á þeim veiðum stóð þrátt fyrir leiðindaveður. Að makrílveiðunum loknum var haldið á Halamið í ufsa og síðan á mið úti fyrir Suðausturlandi. 


Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar hefur tekið á móti tæplega 20 þúsund tonnum af makríl og síld

Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirFiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur tekið á móti tæplega 20 þúsund tonnum af makríl og síld á yfirstandandi vertíð. Þar af eru rúmlega 11 þúsund tonn makríll. Beitir NK er nú að landa í fiskiðjuverið til vinnslu en afli hans er 370 tonn, þar af 275 tonn makríll. Börkur NK kom inn í nótt vegna óhagstæðs veiðiveðurs með 240 tonn og er afli hans til helminga makríll og síld. Hann bíður löndunar.

Alls hafa vinnsluskip landað tæplega 14.500 tonnum af makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar á vertíðinni. Kristina EA kom til hafnar í dag og er að landa fullfermi af frystum afurðum eða rúmlega tvö þúsund tonnum.


Vaxandi vægi síldarinnar

SíldAð undanförnu hafa uppsjávarveiðiskipin sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað borið meiri síld að landi en fyrr á vertíðinni enda langt komin með makrílkvóta sína. Fram undir þetta hefur megináherslan verið lögð á veiðar á makríl en reynt að forðast eftir föngum of mikla síld sem meðafla. Börkur NK er að landa 640 tonnum í fiskiðjuverið núna og er aflasamsetningin svofelld: 493 tonn síld, 85 tonn makríll og 67 tonn kolmunni. Áður landaði Beitir NK samtals 492 tonnum og þar af var síld 352 tonn, makríll 84 tonn og 55 tonn kolmunni.

Helgarfrí stendur fyrir dyrum í fiskiðjuverinu og miðast veiðarnar við það. Áhöfn Bjarna Ólafssonar AK er í nokkurra daga fríi og Beitir mun ekki halda til veiða á ný fyrr en á laugardag.

Af togurum Síldarvinnslunnar er það að frétta að Barði NK er á ufsaveiðum í Berufjarðarál og mun væntanlega landa eftir miðja næstu viku en Bjartur NK landaði 100 tonnum í Neskaupstað sl. þriðjudag og var uppistaða aflans þorskur. Bjartur heldur til veiða á ný í dag.

Aukið öryggi fyrir yngstu nemendur Nesskóla

Kátir nemendur í nýju endurskinvestunum. Ljósm. Eysteinn Þór Kristinsson

Við skólabyrjun færði Síldarvinnslan Nesskóla endurskinsvesti að gjöf en þau eru ætluð nemendum í 1. og 2. bekk. Vestin verða notuð þegar farið verður með nemendahópana í gönguferðir um bæinn og munu þau auka mjög öryggi barnanna í umferðinni.

Skólinn er afar þakklátur fyrir þessa höfðinglegu gjöf og vill taka fram að það sé ómetanlegt fyrir hann að eiga hauka í horni á borð við Síldarvinnsluna.

Stærstu frystigeymslur landsins eru í Neskaupstað - umfjöllun Útvegsblaðsins

Smelltu hér til að lesa umfjöllun Útvegsblaðsins um frystigeymslur Síldarvinnslunnar

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf.

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf.Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf. verður haldinn fimmtudaginn 5. september 2013 í Hótel Egilsbúð Neskaupstað kl. 14:00.


Dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar
2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til staðfestingar
3. Tekin ákvörðun um greiðslu arðs
4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
5. Ákveðin þóknun til stjórnar félagsins
6. Breytingar á samþykktum félagsins
 • a. Tillaga um að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm
 • b. Tillaga um nýtt ákvæði til samræmis við ákvæði hlutafélagalaga varðandi kynjakvóta við stjórnarkjör
 • c. Tillaga um nýtt ákvæði er varðar tilkynningar um framboð til stjórnar og meðferð þeirra.
 • d. Tillaga um breytingu á ákvæði er varðar heimild varastjórnarmanna til setu á stjórnarfundum.
 • e. Tillaga um breytingu á ákvæði er varðar skuldbindingarheimild stjórnar þannig að undirskrift þriggja stjórnarmanna sé nauðsynleg í stað tveggja áður.
7. Kosin stjórn félagsins
8. Kosnir endurskoðendur
9. Önnur mál, löglega fram borin


Stjórn Síldarvinnslunnar hf.

Á ýmsu gengur á makríl- og síldarvertíðinni

Makrílhol tekið á Barða NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonAð undanförnu hefur afli makrílskipanna úti fyrir Austur- og Suðausturlandi verið töluvert síldarblandaður og hafa sumir farmar verið makríll og síld til helminga eða jafnvel meirihlutinn síld. Til að komast í hreinni makríl héldu Beitir NK og Börkur NK vestur fyrir land og hafa verið þar við veiðar frá því í gær. Í morgun voru komin um 300 tonn um borð í Beiti en afla beggja skipa hefur verið dælt um borð í hann. Vonast er til að Beitir geti lagt af stað til heimahafnar með góðan afla síðar í dag en þangað er um 30 tíma sigling. Börkur mun hinsvegar halda áfram veiðum vesturfrá.
 
Bjarni Ólafsson AK, þriðja skipið sem landar makríl og síld til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, er við veiðar á austurmiðum og kemur væntanlega til löndunar í kvöld.
 
Frystitogarinn Barði NK hefur verið á makrílveiðum vestur af landinu og hefur hann nú lokið við veiða sinn makrílkvótakvóta á vertíðinni. Ekki er gert ráð fyrir að Barði komi til löndunar eftir að makrílveiðum lýkur heldur mun hann þegar hefja ufsaveiðar úti fyrir Vestfjörðum en þar hefur verið góð veiði síðustu vikur. Gert er síðan ráð fyrir að Barði landi í Neskaupstað um mánaðamótin.

Góður andi og frábær laun í fiskiðjuverinu

Lilja Tekla Jóhannsdóttir að störfum í fiskiðjuverinu. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirSíðastliðið vor réði Síldarvinnslan rúmlega 50 sumarstarfsmenn til starfa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Flestir þessara starfsmanna voru á aldrinum 18-20 ára og stunduðu þeir vaktavinnu á makríl- og síldarvertíðinni. Um þessar mundir eru sumarstarfsmennirnir að láta af störfum enda skólar að byrja og ný verkefni að komast á dagskrá.
 
Til að forvitnast um viðhorf þessara ungu sumarstarfsmanna til starfanna í fiskiðjuverinu voru tveir þeirra teknir tali. Fyrir valinu urðu Smári Björn Gunnarsson og Lilja Tekla Jóhannsdóttir en þau eru bæði fædd á árinu 1995 og eru á þriðja námsári í Verkmenntaskóla Austurlands.
 
Smári sagði að sér hefði líkað sumarvinnan vel en þó hefði komið í ljós að vaktavinna ætti ekki sérlega vel við sig. Sérstaklega fannst honum næturvaktirnar erfiðar og langar. Á vinnustaðnum hefði ríkt góður andi og félagsskapurinn verið skemmtilegur.
 
Lilju Teklu féll aftur á móti vaktavinnan vel og sagði að sér hefði reynst létt að aðlaga sig að vinnuskipulaginu. Þá sagði Lilja að vinnan hefði í sjálfu sér ekki verið erfið en langvarandi stöður við færibönd hefðu hins vegar verið þreytandi fyrir sig. Þá tók hún undir með Smára og sagði að vinnufélagarnir hefðu verið góðir og starfsandinn eins og best verður á kosið.
 
Bæði Smára og Lilju Teklu var tíðrætt um launin sem þau voru sammála um að væru frábær. Fram kom hjá þeim að launin fyrir júlímánuð hefðu verið á milli 500-600 þúsund krónur og víst væri að flestir jafnaldrar þeirra á landinu dauðöfunduðu þau af þeim. Fram kom að makríl- og síldarvertíðin hefði hafist heldur seinna í ár en síðastliðin ár og því hefði vaktavinna ekki hafist fyrr en um mánaðamótin júní-júlí og sumarlaunin væru því heldur lægri en að undanförnu. Þau voru sammála um að nauðsynlegt væri að borga vel fyrir þessa vinnu því þeir sem sinntu henni gætu ekki fengist við neitt annað á meðan; íþróttastarf og annað félagslíf væri varla á dagskrá hjá þeim sem réðu sig í sumarvinnu í fiskiðjuverið.

Vinningsverkefni nemenda í Sjávarútvegsskólanum

Vinningshópurinn að störfum. Ljósm. Margrét Þórðardóttir.Í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar þurftu nemendur að skila hópverkefni. Fengu hóparnir ráðrúm til að ljúka verkefnum sínum eftir að skóla lauk en þeim þurfti að skila í síðasta lagi hinn 15. ágúst. Hóparnir voru fimm talsins og skiluðu þeir allir verkefnum sínum á tilsettum tíma. Þremur verkefnanna var skilað í formi veggspjalda, einu í formi ritgerðar og einu í stafrænu formi.

Verkefnin sem hóparnir völdu sér voru af ýmsum toga. Einn hópurinn tók viðtöl við einstaklinga sem höfðu reynslu af ýmsum þáttum sjávarútvegs á meðan annar fjallaði um þær breytingar sem orðið hafa á sjómennsku frá miðri síðustu öld og gerði einnig sjómennsku kvenna nokkur skil. Þriðji hópurinn tók síldarævintýrið fyrir og sá fjórði fjallaði um nýsköpunartogarann Egil rauða NK. Fimmti og síðasti hópurinn gerði grein fyrir ýmsum tegundum veiðarfæra og notkun þeirra.

Gefið hafði verið út að besta verkefnið yrði verðlaunað og því þurfti að fara fram mat á þeim. Tvö verkefnanna þóttu standa upp úr og vera áberandi best; annars vegar verkefnið um veiðarfærin og hins vegar verkefnið um Egil rauða. Að lokinni nákvæmri skoðun varð niðurstaðan sú að verkefnið um Egil rauða bæri sigur úr býtum.

Lesa meira...

Margrét Þórðardóttir lætur af störfum

Margrét Þórðardóttir í kveðjusiglingunni með starfsfélögum sínum á skrifstofu Síldarvinnslunnar þeim Jóni Má Jónssyni, Sindra Sigurðssyni og Axel Ísakssyni. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSíðastliðinn föstudag lét Margrét Þórðardóttir af störfum hjá Síldarvinnslunni. Hún hafði starfað hjá fyrirtækinu í tæplega 18 ár og mörg undanfarin ár hefur hún verið einkaritari framkvæmdastjóra. Störf Margrétar voru þess eðlis að hún þurfti að vera í samkiptum við marga og má því segja að hún hafi verið einskonar andlit fyrirtækisins út á við.  Eitt af síðustu verkum Margrétar var að veita Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar forstöðu en þar var um að ræða athyglisvert brautryðjandaverkefni.
 
Í lok síðasta vinnudags kvaddi starfsfólk skrifstofu Síldarvinnslunnar Margréti með virktum og fór kveðjuathöfnin fram á meðan siglt var um Norðfjarðarflóann í blíðviðri.
 
Margrétar verður sárt saknað en hún heldur nú til náms í Keili. Síldarvinnslan vill þakka henni góð störf í þágu fyrirtækisins og það er aldrei að vita nema kynnin verði endurnýjuð að námstímanum loknum.

Makríllinn fer batnandi

Makríll unninn í fiskiðjuverinu. Ljósm: Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með um 460 tonn af makríl og síld og er nú verið að landa úr honum í fiskiðjuverið. Mikill meirihluti aflans er makríll en um 80 tonn er síld.

Makríllinn sem borist hefur að landi að undanförnu er mun betri en sá makríll sem barst fyrr á vertíðinni og er farmurinn úr Beiti staðfesting á því. Eftir því sem fiskurinn verður betri gengur vinnslan betur og eru menn ánægðir með þessa þróun eins og gefur að skilja.

Allt samkvæmt áætlun í fiskiðjuverinu

Fiskiðjuver og frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍ fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað gengur allt samkvæmt áætlun. Landað var úr Berki NK í gær um 460 tonnum og í dag er verið að landa rúmum 400 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK. Hlé var gert á vinnslu í nótt á meðan þrif fóru fram en að sjálfsögðu þarf að þrífa fiskiðjuverið með reglubundnum hætti. Beitir NK er síðan væntanlegur til löndunar í fyrramálið.

Aflinn sem Börkur og Bjarni Ólafsson komu með er töluvert blandaður. Í Berki var um helmingur aflans makríll og um helmingur síld, í Bjarna Ólafssyni er hins vegar makríll rúmlega helmingur aflans.


Barði NK í sínum þriðja makríltúr

Makrílhol. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK er nú í sínum þriðja makríltúr á vertíðinni. Reyndar landaði skipið tvisvar fullfermi í síðasta túr. Þegar heimasíðan hafði samband við Barða skömmu fyrir hádegi í dag var hann á veiðum í Hornafjarðardýpi og upplýsti Geir Stefánsson stýrimaður síðuna um að aflinn væri nægjanlegur til að halda fullum afköstum í vinnslunni. Að sögn Geirs ætti skipið að vera í landi með fullfermi upp úr næstu helgi ef ekkert hlé yrði á vinnslu.Makrílvinnsla um borð í Barða NK. Ljósm. Þorgeir Baldursson

 

Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar slitið í fyrsta sinn

Nemendur Sjávarútvegsskólans með útskriftarskirteinin. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar var slitið í fyrsta sinn í dag. Skólinn hóf starfsemi sína hinn 29. júlí og starfaði í tvær vikur. Alls veittu 24 nemendur útskriftarskírteinum móttöku í Safnahúsinu í Neskaupstað og að því loknu var boðið upp á góða hamborgaraveislu.
Síðustu dagar skólastarfsins voru viðburðaríkir en þá áttu sér stað heimsóknir í vinnslustöðvar Síldarvinnslunnar ásamt því að skrifstofur fyrirtækisins voru heimsóttar. Eins fengu nemendur fyrirlestur um störfin sem framkvæmd eru á skrifstofunum.

Í vinnslustöðvunum var tekið á móti nemendahópnum og hann fræddur um starfsemina. Í fiskimjölsverksmiðjunni var framleiðsluferillinn útskýrður og vakin athygli nemenda á því að verksmiðjan er að mestu leyti tölvustýrð. Þá voru störfin á rannsóknastofu verksmiðjunnar kynnt.
Þórhallur Jónasson gæðastjóri fræðir nemendur á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar. Ljósm. Margrét Þórðardóttir

Nemandi í Sjávarútvegsskólanum að hefja flökun á ufsa. Ljósm. Margrét Þórðardóttir

Lesa meira...

Undirflokkar